Kvika banki og mennta- og menningarmálaráðuneytið hafa undirritað samstarfssamning vegna stofnunar hvatningarsjóðs, en hann mun styrkja kennaranema um 15 milljónir á ári næstu þrjú árin.
Lilja D. Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, fagnar stofnun sjóðsins og segir að það sé ánægjulegt að finna fyrir þeirri breiðu samstöðu sem sé að myndast í atvinnulífinu um mikilvægi kennaranáms.
Markmið með nýjum hvatningarsjóði kennaranema er að efla umræðu og vitund um mikilvægi kennaranáms. Kvika banki hefur frumkvæði að stofnun sjóðsins og vill með því stuðla að jákvæðum langtímaáhrifum á samfélagið. Lilja Alfreðsdóttir og Ármann Þorvaldsson forstjóri Kviku banka skrifuðu í dag undir samstarfssamning vegna hvatningarsjóðsins, en hann mun veita samtals 15 milljónum króna í styrki til kennaranema á næstu þremur árum.
„Öflugt menntakerfi er forsenda framfara. Það er ánægjulegt að finna þá breiðu samstöðu sem er að skapast í atvinnulífinu um mikilvægi kennarastarfsins og aukna viðurkenningu á því. Ég fagna framtaki Kviku, hvatar sem þessi skipta miklu máli. Það er samfélagslegt verkefni að efla menntakerfið okkar og við þurfum að nálgast það úr ólíkum áttum. Nú vinnum við ötullega að því að fjölga kennaranemum og auka nýliðun í kennarastéttinni og tilkoma þessa nýja sjóðs styður sannarlega við þær aðgerðir,“ sagði Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.
„Það er yfirlýst stefna Kviku að hafa jákvæð langtímaáhrif á samfélagið með sérstaka áherslu á menntamál. Í samræmi við það setti bankinn í fyrra á laggirnar hvatningarsjóð fyrir iðnnema sem hlotið hefur mjög jákvæðar undirtektir. Mikilvægi kennaranáms fyrir samfélagið er ótvírætt og markmiðið með Hvatningarsjóði kennaranema er að hvetja öfluga einstaklinga til þess að velja nám í menntavísindum og efla vitund um mikilvægi kennaranáms. Við erum mjög ánægð að hafa fengið mennta- og menningarmálaráðuneytið í samstarf við okkur, enda fellur sjóðurinn vel að nýkynntum áherslum ráðuneytisins,“ sagði Ármann Þorvaldsson forstjóri Kviku.
Allir sem hyggjast hefja kennaranám á komandi vetri geta sótt um styrk.
Kvika auglýsir eftir umsóknum um styrki úr sjóðnum á tímabilinu mars til maí ár hvert vegna komandi skólaárs. Sjóðurinn mun veita styrki að fjárhæð 5 milljónum kr. árlega næstu þrjú árin. Heildarstyrkir munu því nema 15 milljónum kr. á tímabilinu 2019-2022.
Ráðgert er að styrkupphæðir nemi 500.000 til 1.000.000 kr. og að sjö umsækjendur hljóti styrk ár hvert. Úthlutunarnefnd skipuð fulltrúum tilnefndum af Kviku og mennta- og menningarmálaráðuneytinu fer yfir umsóknir og tekur ákvörðun um styrkveitingar. Ávallt verður litið til kynjahlutfalla og leitast við að hafa þau jöfn.