Sjö eru í framboði til stjórnar Icelandair Group en aðalfundur félagsins fer fram á morgun. Stjórnin er skipuð fimm manns og því má gera ráð fyrir spennandi kosningu um stjórnarsæti í félaginu á morgun.
Í stjórn félagsins í dag eru Úlfar Steindórsson, formaður, Ómar Benediktsson, Heiðrún Jónsdóttir, Guðmundur Hafsteinsson og Ásthildur Otharsdóttir.
Ásthildur, sem er stjórnarformaður Marels, er ekki í kjöri til stjórnar, en aðrir stjórnarmenn bjóða fram krafta sína til áframhaldandi setu.
Í framboði eru auk þeirra fjögurra fyrrnefndu þær Guðný Hansdóttir, Svafa Grönfeldt og Þórunn Reynisdóttir.
Icelandair hefur gengið í gegnum erfiða tíma undanfarin tvö ár. Á síðustu tólf mánuðum hefur félagið fallið um rúmlega 43 prósent að markaðsvirði, en það nemur um þessar mundir 42 milljörðum króna, sem er langt undir eiginfjárstöðu félagsins.
Eigið féð var í lok árs rúmlega 470 milljónir Bandaríkjadala, eða sem nemur 56,8 milljörðum króna.
Reksturinn hefur verið þungur undanfarin misseri og blikur á lofti í íslenskri ferðaþjónustu eftir mikinn vöxt á undanförnum árum. Tap Icelandair á fjórða ársfjórðungi síðasta árs nam um 6,8 milljörðum króna.