Samþykkt var á hluthafafundi Origo, áður Nýherja, í dag að greiða hluthöfum einn milljarð í arð.
Í stjórn félagsins voru kosin Ívar Kristjánsson, stjórnarformaður, Hildur Dungal, Guðmundur Jóhann Jónsson, Svafa Grönfeldt og Hjalti Þórarinsson, en sú skipan var í takt við tillögu tilnefningarnefndar.
Gunnar Zoega tók sæti varastjórnarmanns.
Þá samþykkti aðalfundur að lækka hlutafé félagsins úr kr. 465.303.309 að nafnverði í kr. 459.600.000 að nafnverði, og að eigin hlutir félagsins að nafnverði kr. 5.703.309 séu þannig ógiltir. Stjórn félagsins skal heimilt að uppfæra samþykktir félagsins til samræmis við hlutafjárlækkunina, segir í tilkynningu um samþykktir aðalfundar.
Hagnaður félagsins á síðasta ári nam 5,4 milljörðum króna. Markaðsvirði félagsins er um þessar mundir 10,2 milljarðar og hefur það lækkað um 8,6 prósent á undanförnu ári.
Eigið fé félagsins nam 8,2 milljörðum króna í árslok síðasta árs. Eignir voru 12,3 milljarðar og skuldir 4,1 milljarður.
Ennfremur var samþykkt að mánaðarleg stjórnarlaun verði 590 þúsund fyrir formann og 270 þúsund fyrir meðstjórnendur. Þóknun fyrir setu í undirnefndum verði þá 62 þúsund fyrir hvern fund.