Mario Draghi, forseti stjórnar Seðlabanka Evrópu, tilkynnti í dag um umfangsmiklar aðgerðir bankans til að örva hagvöxt á evrusvæðinu.
Ekki eru nema rúmir tveir mánuðir síðan að bankinn hætti formlega með umfangsmikla áætlun sína um örvun hagkerfa evrusvæðsins sem fólst í kaupum á skuldabréfum, fyrir um 60 milljarða evra í hverjum mánuði.
Um mitt síðasta ár tilkynnti bankinn um að hann myndi hætta með áætlunina, og var það gert til að gefa fyrirtækjum og þjóðríkjum svigrúm til að laga sig að breyttum veruleika, en aðgerðir seðlabankans hafa skipt sköpum framgang efnahagsmála á evrusvæðinu, enda umfang aðgerðanna mikið.
Watch ECB press conference live: President Mario Draghi explains today’s monetary policy decisions https://t.co/ZLG9NjYvfk
— European Central Bank (@ecb) March 7, 2019
Horfur í efnahagsmálum í Evrópu hafa versnað hratt undanfarin misseri, og byggja aðgerðir bankans nú á því, að þörf sé á því að bankinn láti til sín taka til að skapa betri jarðveg fyrir vöxt.
Þetta verður gert með lánveitingum á lágum vöxtum til fjármálafyrirtækja, sem síðan geta lánað áfram til fyrirtækja og fjárfesta. Vextir bankans eru í núlli. Aðgerðirnar nú byggja því að hluta á því að endurvekja áætlun bankans sem hætt var með í byrjun árs, en bankinn metur það svo að nauðsynlegt sé að styðja við þróun mála á evrusvæðinu, að því er fram kemur í tilkynningu bankans.
Hagvaxtarspá bankans var nýlega uppfærð, og gerir nú ráð fyrir 1,1 prósent hagvexti á þessu ári í stað 1,7 prósent áður. Atvinnuleysi í Evrópu hefur farið lækkandi undanfarin misseri og mælist nú 6,5 prósent.