Félagsdómur hefur komist að þeirri niðurstöðu að verkfall Eflingar, sem á að hefjast á morgun, sé löglegt. Frá þessu er greint á vef Vísis. Úrskurðurinn var kveðinn upp klukkan 13 í dag.
Verkföll hefjast í fyrramálið eftir að Félagsdómur dæmdi verkfallsboðun Eflingar lögmæta.
Í tilkynningu frá Eflingu er niðurstöðunni fagnað. Þar er haft eftir Sólveigu Önnu Jónsdóttur, formanni Eflingar, að niðurstaðan sé frábær en að hún hafi ekki komið sér á óvart. „Ég er gríðarlega þakklát Karli Ó. Karlssyni lögmanni okkar sem flutti málið af festu en vil líka þakka Magnúsi Norðdahl, formanni kjörstjórnar Eflingar og aðallögfræðingi ASÍ, fyrir að hafa aðstoðað við okkur við að standa rétt að þessari atkvæðagreiðslu frá upphafi. Það er leitt að þurfa að leggja svona mikla orku í að verjast lagaklækjum, en verkalýðshreyfingin á sem betur fer góða að,“ segir Sólveig Anna.
Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Eflingar, segir að það sé að hans mati ekki jákvætt að notast við lagaklæki til að koma í veg fyrir að fólk geti nýtt lýðræðisleg réttindi sín. „Niðurstaða dómsins staðfestir þau réttindi. Ég held að allir sem kynntu sér greinargerðir okkar og SA í þessu máli hafi séð það í hendi sér að lítill fótur var fyrir málatilbúnaði SA,“ segir hann.
Kröfðust þess að verkfallið yrði dæmt ólögmætt og að Efling greiddi sekt
Samtök atvinnulífsins höfðuðu mál fyrir Félagsdómi gegn Eflingu og kröfðust þess að boðað verkfall 8. mars næstkomandi yrði dæmt ólögmætt. Þess var einnig krafist að Efling yrði dæmt til greiðslu sektar í ríkissjóð vegna brota á lögum um stéttarfélög og vinnudeilur.
Í tilkynningu sem Samtök atvinnulífsins sendu frá sér vegna þessa sagði að þau teldu „atkvæðagreiðslu Eflingar hafa verið andstæða lögum enda verði vinnustöðvun, sem einungis sé ætlað að ná til ákveðins hóps félagsmanna, einungis borin undir þá félagsmenn sem vinnustöðvun er ætlað að taka til. Einnig er vísað til þess að atkvæðagreiðsla Eflingar hafi ekki verið póstatkvæðagreiðsla í skilningi laga enda var atkvæða að mestu aflað með kjörfundum fyrir utan einstaka vinnustaði. Þegar atkvæði eru greidd á kjörfundi þurfa a.m.k. 20% félagsmanna á atkvæðaskrá að taka þátt í atkvæðagreiðslu.“
Nú hefur Félagsdómur komist að þeirri niðurstöðu að verkfallið sé löglegt. Hreingerningarfólk á hótelum fer því í eins dags verkfall á morgun að óbreyttu.
Félagsmenn Eflingar samþykktu boðun verkfallsins með yfirgnæfandi meirihluta greiddra atkvæða. Af 862 greiddum atkvæðum voru 769 sem samþykktu boðunina, 67 greiddu atkvæði gegn og 26 tóku ekki afstöðu. Verfallsboðunin var því samþykkt með 89 prósent atkvæða.