„Þó virðist sem fjármagnið sem ráðstafa á til innviðaframkvæmda í núverandi samgönguáætlun dugi varla til að sinna uppsöfnuðu viðhaldi, hvað þá nýfjárfestingu. Ríkissjóður ætti ekki að veigra sér við að ráðast í arðbærar framkvæmdir sökum úreltra umræðupunkta um skuldsetningu, auk þess sem hagsveiflan heldur ekki aftur af okkur um þessar mundir. Að sama skapi ætti að ræða um aðkomu annarra aðila en ríkisins að slíkum framkvæmdum út frá eignadreifingarsjónarmiði. Dýpka þarf umræðuna um fjármögnun innviða og losna úr þeim skotgröfum sem snúa að afstöðu fólks til skuldsetningar og einka- eða ríkisframtaks.“
Þetta segir í lokaorðum ítarlegrar greinar Kristrúnar Frostadóttur, aðalhagfræðings Kviku banka, þar sem fjallað er um innviðfjárfestingar í samhengi við umræðu um skuldsetningu hins opinbera og hagfræðikenningar um þau mál.
„Síðastliðin ár hefur mikil áhersla verið á lækkun ríkisskulda. Í kjölfar alþjóðlegu fjármálakreppunnar var bent á að aukin skuldsetning hins opinbera og einkaaðila hefði grafið undan efnahagsstöðugleika. Markmiðið hlyti því að vera að lækka skuldahlutföll sem fyrst. Þetta sjónarmið ríkti ekki aðeins meðal stjórnvalda víðsvegar, heldur var í forgrunni efnahagsaðgerða alþjóðlegra stofnanna og ríkjabandalaga líkt og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) og Evrópusambandsins. Þó vissulega hafi verið rökrætt um skuldir í áratugi, þekkja fæstir til fræðilegs aðdraganda þessarar áherslu á allra síðustu árum, sem leiddi af sér harðar niðurskurðaraðgerðir.
Árið 2010 birtu hagfræðingarnir Reinhart og Rogoff áhrifamikla rannsókn á áhrifum skuldastöðu ríkissjóðs á hagvöxt og gáfu samhliða út vinsæla bók sem gerði efnið aðgengilegt. Gögn þeirra náðu yfir tvær aldir og til 44 landa. Niðurstöðurnar bentu til þess að þegar skuldir ríkissjóðs næðu krítíska gildinu 90% af landsframleiðslu minnkaði hagvöxtur um 1,5-2% að meðaltali. Fallið varð enn dramatískara ef aðeins væri litið til áranna eftir seinna stríð. Skuldaóþolið fólst í því að við 90% mörkin hækkaði áhættuálag viðkomandi lands vegna ótta fjárfesta á gjaldfalli. Slíkt leiddi til þess að erfiðara og dýrara yrði fyrir ríkissjóð að endurfjármagna sig. Ríki þyrftu því að senda skýr skilaboð til fjármagnsmarkaða um að „tekið yrði til“ í efnahagsmálum landsins til að lækka áhættuálagið. Reinhart og Rogoff voru á því að óalgengt væri að land gæti „vaxið út úr“ skuldabyrðinni – þ.e. lækkað skuldahlutfallið (skuldir/landsframleiðslu) með því að hækka landsframleiðsluna. Ráðast yrði á teljarann, skuldirnar sjálfar. Skilaboðin gátu ekki ekki verið einfaldari, enda gripu margir stjórnmálamenn niðurstöðuna á lofti.
Í kjölfarið spratt upp umræða meðal hagfræðinga um réttmæti fyrrgreindrar niðurstöðu. Minna fór fyrir umfjöllun um þau skoðanaskipti í almennri umræðu. Fyrri skilaboðin voru skýr og sjaldnast fréttnæmt þegar málin eru flækt. Til að gera langa sögu stutta hófst gagnrýnin á rannsókn sem sýndi fram á að villur í gagnasafni Reinhart og Rogoff bentu til þess að stökkið sem mældist við 90% væri ekki jafn augljóst og upphaflegu niðurstöðurnar leiddu í ljós. Hagfræðingar neituðu því ekki að mikil skuldsetning gæti leitt af sér minni hagvöxt í einhverjum tilfellum, en ekki væri hægt að fullyrða að orsakasamhengið væri alltaf í þá áttina. Lítill hagvöxtur gæti líka leitt til þess að skuldahlutfallið hækkaði. Vandi gæti skapast ef ráðist yrði í aðgerðir til að lækka teljarann, skuldirnar, ef þær drægju nefnarann niður með sér, hagvöxtinn. Skuldahlutfallið (skuldir/landsframleiðslu) stæði þá í stað,“ segir meðal annars í grein Kristrúnar.
Hægt er að gerast áskrifandi að Vísbendingu hér.