Með dómi í dag var stjórnvaldssekt sem Fjármálaeftirlitið lagði á fjármálafyrirtækið Arctica Finance, upp á 72 milljónir, í september 2017, lækkuð niður í 24 milljónir króna, og ber ríkissjóði að endurgreiða mismuninn, 48 milljónir króna, með vöxtum.
Arctica Finance stefndi FME vegna ákvörðunarinnar, sem byggði á því að arðgreiðslur til starfsmanna hefðu brotið gegn reglum um kaupauka.
Dómurinn féllst á að arðgreiðslur til starfsmanna Arctica Finance hf. hafi í raun verið kaupauki, en fallist var að hluta á kröfu Arctica Finance hf. um að ógilda framangreinda ákvörðun og lækka sektarfjárhæðina, eins og áður segir.
Nánar tiltekið taldi héraðsdómur að þær reglur, sem Fjármálaeftirlitið studdi ákvörðun sína við fyrir tímabilið 2012-2015, hafi ekki haft næga lagastoð sem viðurlagaheimild, að því er segir í tilkynningu FME.
„Héraðsdómur taldi á hinn bóginn að ákvörðun Fjármálaeftirlitsins vegna áranna 2016 og 2017 hafi haft næga stoð í lögum, en 57. gr. a laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sem ætlað var að takmarka kaupaukagreiðslur fjármálafyrirtækja, var breytt í júlí 2015. Á grundvelli þessa var ákvörðun Fjármálaeftirlitsins staðfest að hluta, en fjárhæð sektar, sem Fjármálaeftirlitið hafði lagt á Arctica Finance hf., lækkuð,“ segir í tilkynningu FME.
Í dómnum segir að ekki verði fallist á það, að mikill vafi hafi verið uppi um hvernig túlka bæri reglur varðandi arðgreiðslurnar. Ákvörðun FME byggði á því að fyrirtækið hefði greitt tilteknum starfsmönnum, sem jafnframt voru hluthafar í svonefndum B, C- og D-flokkum, kaupauka í formi arðs af hlutum sínum í félaginu á árunum 2012 til 2017, og var þetta talið vera brot.
„Svo sem áður greinir telur dómurinn að leggja verði til grundvallar að einungis hafi verið gild refsiheimild fyrir hendi vegna háttsemi stefnanda vegna kaupaukagreiðslna fyrir árin 2016 og 2017 og verður við ákvörðun stjórnvaldssektar að taka mið af því. Í þessu felst einnig að ekki verður litið svo á að brot stefnanda hafi staðið yfir í langan tíma, svo sem gengið er út frá í hinni umstefndu ákvörðun. Svo sem áður greinir upplýsti stefnandi stefnda, Fjármálaeftirlitið, með ítarlegum hætti um það fyrirkomulag sitt við arðgreiðslur sem hér um ræðir á árinu 2011 og óskaði eftir viðbrögðum hans. Á hinn bóginn fellst dómurinn ekki á það með stefnanda að neinn raunverulegur vafi hafi verið uppi um túlkun þeirra reglna sem hér um ræðir frá og með fyrrnefndri gildistöku laga nr. 57/2015 þannig að þýðingu hafi við mat á háttsemi hans og fjárhæð sektar. Þá hafði stefnandi enga ástæðu til að ætla, eftir gildistöku laganna, að áðurlýst fyrirkomulag við kaupaukagreiðslur samræmdist þeim lögum og reglum sem honum var ætlað að starfa eftir. Að þessu virtu, en að öðru leyti með vísan til forsendna umræddrar ákvörðunar stefnda, Fjármálaeftirlitsins, þykir stjórnvaldssekt stefnanda hæfilega metin 24.000.000 króna vegna kaupaukagreiðslna á árunum 2016 og 2017,“ segir í dómi héraðsdóms.
Dómari í málinu var Skúli Magnússon. Lögmaður Arctica Finance var Steinar Guðgeirsson hrl. en lögmaður FME Jóhannes Karl Sveinsson hrl.