Már Guðmundsson seðlabankastjóri segist ekki hafa reynt að koma í veg fyrir að bankaráð Seðlabanka Íslands ynni greinargerð um gjaldeyriseftirlit bankans. Það er bara af og frá og ég er ekki fæddur í gær. Ég veit alveg hvað pólitískur ómöguleiki er. Það hefði aldrei hvarflað að mér í ljósi þess sem undan var gengið að það væri yfirleitt hægt.“
Þetta er meðal þess sem fram kemur í viðtali Þórðar Snæs Júlíussonar, ritstjóra Kjarnans, við Má í sjónvarpsþættinum 21 á Hringbraut í liðinni viku. Þar ræðir Már meðal annars ítarlega þá gagnrýni sem Seðlabankinn hefur fengið fyrir það hvernig hann gekk fram í eftirliti með því að lögum og reglum um fjármagnshöft, sem voru í gildi hér í tæpan áratug, yrði framfylgt. Hægt er að sjá stiklu úr þættinum hér að neðan.
Bankaráð Seðlabanka Íslands skilaði nýverið greinargerð til forsætisráðherra vegna forsenda fjármagnshafta og sérstaklega framkvæmdar á gjaldeyriseftirliti bankans. Tilefni hennar voru mál sem tengjast rannsókn bankans á útgerðarfyrirtækinu Samherja. Í greinargerðinni kom fram að eðlilegt sé að bankinn taki sögu fjármagnshaftanna, sem sett voru á í nóvember 2008 í kjölfar hruns bankanna, til gaumgæfilegrar skoðunar.
Segir þar enn fremur að brýnt sé að bankinn taki til sín harða gagnrýni frá Umboðsmanni Alþingis um málið. Bankinn hefur nú þegar sagt að hann muni endurgreiða allar sektir og sáttagreiðslur, vegna rannsókna og kærumeðferða, þar sem staðfest hafi verið að engin lagastoð hafi verið fyrir aðgerðum.
Már hafnar því að Seðlabankinn hafi beitt valdníðslu. Hann segir að honum finnist margt mjög gott í greinargerð bankaráðsins. Hún sé tvískipt, annars vegar almenn greinargerð sem allir í ráðinu séu sammála um. Siðan séu sérbókanir sem gangi í mismunandi áttir.
Ekkert plott í gangi
Einn þeirra er frá Þórunni Guðmundsdóttur og Sigurði Kára Kristjánssyni, en Már svaraði bókun þeirra sérstaklega með yfirlýsingu á vef Seðlabanka Íslands og sagði bankaráðsmennina tvo fara með rangfærslur.
Már segir að sú yfirlýsing sem birtist í bókun þeirra hafi komið sér svakalega á óvart. „Þar er verið að veitast að ákveðnum sérfræðingum innan bankans sem leggja fram lögfræðilega greinargerð.[...]Líka í ljósi þess hvernig ég hafði sjálfur verið að tala á þessum fundum að vera að segja það að það hafi verið eitthvað plott í gangi í bankanum við að reyna að stoppa vinnuna við þessa greinargerð. Það er bara af og frá og ég er ekki fæddur í gær. Ég veit alveg hvað pólitískur ómöguleiki er. Það hefði aldrei hvarflað að mér í ljósi þess sem undan var gengið að það væri yfirleitt hægt.“
Skilaboðin síuðust inn
Í bréfi sem Már sendi til forsætisráðherra nýverið sagði hann að það hefði glögglega mátt sjá eftir húsleitina hjá Samherja að aðgerðin hefði haft fælingaráhrif og að búið hafði verið í haginn fyrir „hið árangursríka uppgjör við erlenda kröfuhafa.“ Aðspurður um hvort það sé réttlætanlegt, að grípa til slíkra aðgerða gegn einstaklingum og fyrirtækjum, einungis til þess að skapa fælingaráhrif, sagði Már alls ekki svo vera.
„Nei, það er alls ekki réttlætanlegt enda tók ég það fram að það hefði ekki verið hugsað út í það fyrirfram enda ekki lögmæt sjónarmið.“ Hann sagðist hafa verið að taka allt sem hafði verið gert í rannsóknum vegna haftanna sem mögulega hefði haft fælingaráhrif. „Ég er ekki bara að taka þetta með þessa húsleit, ég er að tala það og fleiri mál sem smám saman sendu þau skilaboð, ekki vegna þess að það væri meiningin heldur vegna þess að það var skylda okkar að reyna að verja þessi höft og þá sem við töldum vera að brjóta reglurnar, að grípa þá til einhverra aðgerða í þeim efnum. Þau skilaboð síuðust inn.“
Hægt að fá mjög mikinn hagnað út úr því að brjóta reglurnar
Í ljósi þess að ekki reyndist skýr heimild fyrir Seðlabanka Íslands að beita refsiheimildum, og að bankinn hafi þegar ákveðið að endurgreiða allar sektir og sáttagreiðslur vegna rannsókna og kærumeðferða, þar sem engin lagastoð reyndist fyrir aðgerðunum, var Már spurður að því hvort að það hlyti ekki að vera eðlilegt að draga þá ályktun að framkvæmd Seðlabankans á gjaldeyriseftirlitinu hafi verið í ólagi?
„Ég veit ekki hvort það var framkvæmdin eða hvernig málum var háttað þegar Alþingi tekur sínar ákvarðanir í nóvember 2008. Það er alveg greinilegt af því sem sagt í umfjöllun í þinginu, í greinargerð með frumvarpinu og allri tilurð málsins að það var ætlun þingmannanna að búa til ramma sem væri líka með gildar refsiheimildir[...]Þetta með gildu refsiheimildirnar er náttúrulega mjög alvarlegt mál. Vegna þess að þetta þýðir það að það voru sett hér á höft, það voru gefnar út reglur og það var sagt við allan almenning: „við viljum að þið farið eftir þessum reglum“. Og langflestir gerðu það. En síðan kemur í ljós að það var mjög mikinn hagnað hægt að fá út úr því að brjóta þessar reglur. Og svo kemur í ljós að það væri hægt að gera það án þess að það hefði nein viðurlög í för með sér. Og þetta er náttúrulega stór galli sem þarf að mínu viti að rannsaka hvernig kemur hann til.[...]Það er ekki fyrr en á þessu ári sem við fáum skýr svör frá ríkissaksóknara, og það hefði auðvitað gert mitt líf miklu auðveldara og margra fleiri ef þessi svör hefðu komið til dæmis 2012 þegar við skrifuðum og spurðum út í þetta.“