Svafa Grönfeldt tók sæti í Icelandair Group í dag, en sjö voru í framboði til stjórnar fyrir fimm sæti í stjórn.
Auk Svöfu skipa nú stjórnina Guðmundur Hafsteinsson, Heiðrún Jónsdóttir, Ómar Benediktsson og Úlfar Steindórsson.
Ásthildur Otharsdóttir, stjórnarformaður Marels, var ekki í framboði og kemur Svafa inn í stjórnina í hennar stað. Aðrir í framboði, sem ekki náðu kjöri, voru Guðný Hansdóttir og Þórunn Reynisdóttir.
Rekstur Icelandair hefur verið krefjandi undanfarin misseri, en félagið tapaði 6,8 milljörðum króna á fjórða ársfjórðungi ársins í fyrra og þá hefur markaðsvirði félagsins lækkað um 44 prósent á einu ári. Það lækkaði um 4,8 prósent í dag, í 140 milljóna króna viðskiptum.
Samþykkt var á aðalfundi félagsins í dag, að greiða ekki arð til hluthafa, vegna rekstrar ársins í fyrra.
Óhætt er að segja að Svafa láti til sín taka í íslensku viðskiptalífi, þessi misserin, en kjör hennar í stjórn Icelandair var þriðja kjör hennar í stjórn skráðs félagsins á tveimur dögum. Í gær var hún kjörin í stjórnir Origo, áður Nýherja, og Össurar, þar sem hún hefur átt sæti í stjórn síðan árið 2008.
Í stjórn Origo voru kosin auk Svöfu þau Ívar Kristjánsson, stjórnarformaður, Hildur Dungal, Guðmundur Jóhann Jónsson, og Hjalti Þórarinsson, en sú skipan var í takt við tillögu tilnefningarnefndar.
Í stjórn Össurar, sem er skráð á markað í Kaupmannahöfn, eru auk Svöfu, Niels Jacobsen, Kristján Tómas Ragnarsson, Arne Boye Nielsen og Guðbjörg Edda Eggertsdóttir.
Svafa Grönfeldt er formaður stjórnar MIT DesignX sem er nýjasti viðskiptahraðall MIT háskóla í Boston og starfar hún jafnframt við nýsköpunarsetur skólans.
Hún er ein af stofnendum The MET Fund sem er fjárfestingasjóður fyrir sprotafyrirtæki á sviði hönnunar og tækni í Bandaríkjunum. Svafa hefur setið í stjórn Össurar síðan 2008.
Hún starfaði áður sem framkvæmdastjóri hjá Alvogen og þar áður sem rektor Háskólans í Reykjavík og aðstoðarforstjóri Actavis. Hún hefur lokið doktorsprófi frá London School of Economics í vinnumarkaðsfræðum.