Endanleg skipting milli Indigo Partners og Skúla Mogensen í WOW air veltur á hvernig fjárhagsstaða WOW air þróast á næstu þremur árum, samkvæmt tilkynningu frá flugfélaginu. Samkvæmt tilkynningunni gæti hlutur Skúla, stofnanda og eina eiganda félagsins orðið á bilinu 0 til 100 prósent, allt eftir því hvernig félaginu reiðir af á komandi árum. Jafnframt segir í tilkynningu að virði Wow air sé lægra en áður hafi verið ráðgert í viðræðum félaganna. Þá er einnig gert ráð fyrir að víkjandi lán sem Skúli hefur veitt Wow air verði afskrifað.
Indigo hyggst setja meira í WOW
Í tilkynningu sem birt var á vef WOW air í morgun segir að ráðgert sé að fjárfestingu Indigo Parters í Wow air nemi um 90 milljónum dollara, eða sem samsvarar um 11 milljarða króna að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Það þýðir að félagið hækki fyrra tilboð sitt um 15 milljónir dollara en félagið hafði áður lýst sig reiðubúið að leggja félaginu til allt að 46 milljónir dollara.
Jafnframt segir í tilkynningunni fjárhagsleg endurskipulagning félagsins leiði af sér að allar mögulegar endurheimtur núverandi hluthafa byggi á rekstrarafkomu félagsins á komandi árum. Í yfirlýsingunni er hins vegar ítrekað að enn sé ekki samkomulag komið á milli aðila. Þannig eigi enn eftir að ljúka áreiðanleikakönnun á rekstri félagsins.Nýir skilmálar fyrir skuldabréfaeigendur
Þá þurfi skuldabréfaeigendur sem keyptu bréf í Wow air í september í fyrra að samþykkja nýja skilmála sem feli í sér að endurheimtur þeirra verða bundnar rekstrarframmistöðu fyrirtækisins á næstu árum. Þannig geti endurheimtur þeirra orðið 50 til 100 prósent af upphaflegu virði bréfanna. Jafnframt er óskað eftir því að vextir skuldabréfanna verði lækkaðir úr 9 prósent í 7 prósent. Auk þess verði lengt í skuldabréfunum, í stað þriggja ára eins og upphaflega var lagt upp með er nú miðað við að bréfin endurgreiðist nú á fimm árum. Farið er fram á að ábyrgðir tengdar skuldabréfunum verði felld niður auk þess að skuldabréfin verði afskráð. Breytingar sem skuldabréfaeigendurnir höfðu áður samþykkt runnu úr gildi um síðustu mánaðamót.
Skúli gefi eftir víkjandi lán
Enn fremur kveðið á í tilkynningunni að víkjandi lán sem fjárfestingarfélag Skúla Mogensen, Títan, veitti WOW air og stefnt var að yrði endurgreitt verði afskrifað. Fjárhæð lánsins sem nú er afskrifað nam 6 milljónum dollara, jafnvirði tæplega 730 milljóna króna.