Í október létust 189 þegar Boeing 737 Max 8 vél Lion Air hrapaði skyndilega eftir flugtak í Jakarta í Indónesíu og í gær létust 157 þegar flugvél af sömu tegund hrapaði skyndilega, sex mínútum eftir flugtak í Eþíópíu.
Á undanförnum tveimur árum hafa um 350 vélar af þessari tegund verið í notkun, þar á meðal er Icelandair með þrjár vélar.
Ethiopian Airlines hefur þegar tekið þær sjö Max 8 átta vélar sem það er með í sínum flota úr notkun, en félagið er með 23 slíkar vélar í framleiðsluferli hjá Boeing eftir pöntun á þeim, segir í umfjöllun Seattle Times.
Yfir 100 vélar hafa verið teknar út notkun nú þegar, hjá nítján flugfélögum, en níu flugfélög hafa ekki tekið ákvörðun um að hætta flugi á vélunum. Þar á meðal er Icelandair, sem hefur sagt í yfirlýsingu í dag að félagið bíði eftir því að fá nánari upplýsingar, en fylgist grannt með gangi mála.
Yfirvöld í Kína og á Inlandi hafa tekið ákvörðun um að taka allar vélar af fyrrnefndri tegund úr umferð, þar til frekari upplýsingar koma fram um hvað olli slysunum.
Samkvæmt umfjöllun breska ríkisútvarpsins BBC má búast við því að fleiri flugfélög taki vélar úr notkun á næstunni, þar sem óvissa ríkir um öryggi vélanna.
Dominic Gates, blaðamaður Seattle Times á sviði flugmála, hefur fylgst náið með Boeing um margra ára skeið en framleiðslustöðvar Boeing eru á Seattle svæðinu og er fyrirtækið stærsti einstaki vinnuveitandi svæðisins með um 80 þúsund starfsmenn.
Í umfjöllun hans í dag segir að félagið eigi mikið undir, þegar kemur að framleiðslu á Max 8 vélunum og nær öll framleiðsla fyrirtækisins snúist um að standa við þær pantanir sem hafa nú þegar verið lagðar inn fyrir þessar vélar.
Þetta séu vélarnar sem fyrirtækið hafi veðjað á í sínum áætlunum og í fullum afköstum sé stefnt á að koma 57 vélum úr framleiðslu í hverjum mánuði.
Í umfjöllun Seattle Times segir að rannsókn á flugslysinu í Jakarta beinist meðal annars að svokölluðu MCAS-kerfi (Maneuvering Characteristics Augmentation System) í flugvélinni og hvort skynjarar hafi ekki virkað rétt, með þeim afleiðingum að vélin missti hæð og skall að lokum sjóinn, með þeim afleiðingum að allir um borð létust.
Þau flugfélög sem eru enn með Max 8 vélar í notkun, samkvæmt umfjöllun Seattle Times, eru:
American Airlines - 24 vélar, Southwest Airlines - 34 vélar, Norwegian Airlines - 18 vélar, SilkAir - 6 vélar.
TUI Aviation - 15 vélar. Icelandair - 3 vélar. Fiji Airways - 2 vélar. WestJet - 13 vélar. Flydubai - 11 vélar.
Búast má við því að Boeing sendi frá sér frekari yfirlýsingu, vegna rannsóknar á slysunum, en fyrirtækið hefur þegar sagt í yfirlýsingu það muni vinna hörðum höndum að því að upplýsa um hvað gerðist í þessum tveimur hörmulegu flugslysum, með þeim yfirvöldum sem eftir því óska. Í báðum tilfellum voru vélarnar svo til nýjar, en Ethopian Airlines tók vélina í notkun í nóvember, sem hrapaði í gær.
Flugfélög hafa víða hrunið í verði í dag, vegna flugslysana. Icelandair féll um 9,66 prósent í dag, en gengi Boeing hefur fallið um rúmlega 7 prósent í dag. Markaðsvirði Boeing er í dag 222 milljarðar Bandaríkjadala, eða sem nemur rúmlega 26 þúsund milljörðum króna. Félagið var stofnað í Seattle 1916 og er enn með hjartað í starfsemi sinni á Seattle svæðinu. Höfuðstöðvar fyrirtækisins er í Chicago.