Icelandair Group hefur gengið frá samningi um lán að fjárhæð 80 milljónir bandaríkjadala, eða um 10 milljarða króna, við innlenda lánastofnun, að því er fram kemur í tilkynningu frá félaginu.
Ekki er nánar tilgreint um hvaða lánastofnun er að ræða, en Íslandsbanki hefur verið viðskiptabanki félagsins hér á landi undanfarin ár.
Samhliða verða tíu Boeing 757 flugvélar í eigu félagsins settar að veði til tryggingar greiðslu lánsins. Lánstími er til fimm ára. Gert er ráð fyrir að lánsfjárhæðin verði nýtt sem hlutagreiðsla inn á útgefin skuldabréf félagsins, segir í tilkynningu.
Rekstur Icelandair hefur verið þungur undanfarið en félagið tapaði 6,8 milljörðum króna á fjórða fjórðungi síðasta árs. Miklar sveiflur hafa verið á markaðsvirði félagsins, samhliða samningaviðræðum helsta keppinautarins, WOW air, við bandaríska félagið Indigo Partners.
Í dag lækkaði virði félagsins um 9,66 prósent og nemur markaðsvirði félagsins nú tæplega 37 milljörðum, en eigið fé félagsins í lok árs í fyrra nam tæplega 60 milljörðum.
Stærstu hluthafar Icelandair eru íslenskir lífeyrissjóðir. Lífeyrissjóður verslunarmanna á 14 prósent hlut í félaginu, Gildi lífeyrissjóður 8 prósent og Birta lífeyrissjóður 7,3 prósent, en þessir sjóðir eru þrír stærstu hluthafar félagsins.