FÍ fasteignafélag slhf., fasteignafélag í eigu íslenskra lífeyrissjóða að nær öllu leyti, hagnaðist um 404 milljónir króna í fyrra. Eignir félagsins námu 11,7 milljörðum króna í árslok í fyrra og eru í atvinnuhúsnæði, þar af um 38 prósent í skrifstofuhúsnæði og 18 prósent í hótelhúsnæði, að því er fram kemur í ársreikningi fyrir árið 2018.
Félagið var með 745, milljónir króna í leigutekjur í fyrra en samtals er tekur eignasafn félagsins til rúmlega 23 þúsund fermetra atvinnuhúsnæðis.
Félagið er með samning við Kviku banka sem sér um rekstur félagsins og fær fyrir það umsýsluþóknun. Bankinn er með þrjá menn í stjórn, Hannes Frímann Hrólfsson, Ásgeir H. Reykfjörð Gylfason og Ásgeir Baldurs. Samtals fékk bankinn rúmlega 90 milljónir í umsýsluþóknun í fyrra og stjórnarlaun námu rúmlega 5,4 milljónum króna.
Stærsti hluthafi félagsins er Lífeyrissjóður verslunarmanna með 19,9 prósent hlut. LSR, A og B deild, eiga samtals svipaðan hlut, um 19,9 prósent, en Gildi lífeyrissjóður kemur þar á eftir með 15,9 prósent hlut. Samanlagður hlutur lífeyrissjóða er um 98 prósent.
Vaxtaberandi skuldir félagsins í lok árs í fyrra námu um 7,2 milljörðum króna, en eigið fé félagsins var um 4,3 milljarðar króna.