Helga Vala Helgadóttir, formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, telur að dómsmálaráðherrann, Sigríður Á. Andersen, verði að segja af sér strax í dag. Þetta segir í hún í samtali við Kjarnann eftir að dómur Mannréttindadómstóls Evrópu var ljós í morgun.
Fram kom í fréttum fyrr í dag að Ísland hefði tapað Landsréttarmálinu fyrir Mannréttindadómstólnum en Ísland braut gegn 6. grein mannréttindasáttmála Evrópu sem fjallar um rétt til réttlátrar málsmeðferðar fyrir dómi í máli gegn manni sem dæmdur var í 17 mánaða fangelsi í Landsrétti. Ástæðan er sú að maðurinn fékk ekki réttláta málsmeðferð fyrir Landsrétti vegna þess að Arnfríður Einarsdóttir, sem er dómari við réttinn, var ekki skipuð í hann með lögmætum hætti. Sigríður tilnefndi dómarana sem skipaðir voru í Landsrétt og Alþingi samþykkti þá skipan.
„Þetta kemur auðvitað ekki á óvart,“ segir Helga Vala og bendir á að ákvarðanir ráðherra hafi mikið verið gagnrýndar. Í fyrsta lagi nefnir hún þær ákvarðanir dómsmálaráðherra að víkja frá niðurstöðum hæfnisnefndar án úttektar, í öðru lagi að hún hafi farið gegn ráðleggingum sérfræðinga innan ráðuneytisins og í þriðja lagi að greidd hafi verið atkvæði með öllum fimmtán dómurunum en ekki fyrir hvern og einn.
Annar geti vel tekið við embættinu
„Nú þurfum við að taka til og til þess verður ráðherrann að fara. Hún verður að segja af sér í dag því þetta er ekki minni háttar mál. Ákvarðanir hennar sjálfrar hafa leitt til þessa ástands sem nú er komið upp,“ segir Helga Vala en hún telur jafnframt að embættið sé stærra en Sigríður og að einhver annar geti vel tekið við embættinu. Hún biðlar því til Sigríðar að bera virðingu fyrir embættinu og segja af sér.