Kolbeinn Óttarsson Proppé, þingmaður Vinstri grænna, hyggst ræða harkalegar aðgerðir lögreglu gagnvart mótmælendum í gær á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar eftir hádegi í dag. Frá þessu greinir hann í stöðuuppfærslu á Facebook-síðu sinni í morgun.
Hælisleitendur og flóttamenn voru samankomnir á Austurvelli í gær til að krefjast úrbóta á aðbúnaði sínum og málsmeðferð sinni en lögreglan notaði piparúða á mótmælendur og handtók tvo þeirra. Aðalvarðstjóri hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu segir að til átaka hafi komið þegar lögregla taldi að verið væri að setja upp bálköst. Mótmælandi segir að fólkið hafi aðeins ætlað að skrifa á skilti þegar lögreglan greip inn í.
Mótmælin héldu áfram í gærkvöldi fyrir utan lögreglustöðina en samkvæmt frétt Vísis söfnuðust um 50 til 60 manns þar saman. Þeir sem handteknir voru voru leystir úr haldi seinna um kvöldið.
„Ansi finnst manni þetta harkalegar aðgerðir. Hér er fólk að nýta rétt sinn til að mótmæla og erfitt er að sjá hvað kallar á þessa hörku. Mér finnst einboðið að þetta verði tekið upp á vettvangi þingsins og mun spyrjast fyrir um þetta á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar í dag og fá leiðbeiningar um hvort þetta eigi heima á borði hennar; mótmælin beindust jú gegn þingi og stjórnvöldum. Þetta er viðkvæmasti hópurinn í okkar samfélagi og ég tel að við eigum að gera gangskör í því að bæta aðbúnað hans og mæta honum með skilningi og mánnúð, ekki hörku og piparúða,“ skrifar Kolbeinn.
Ansi finnst manni þetta harkalegar aðgerðir. Hér er fólk að nýta rétt sinn til að mótmæla og erfitt er að sjá hvað...
Posted by Kolbeinn Óttarsson Proppé on Tuesday, March 12, 2019
Ekkert tilefni til harkalegra viðbragða
Logi Már Einarsson, þingmaður og formaður Samfylkingarinnar, furðaði sig jafnframt á aðgerðum lögreglu á mótmælum hælisleitenda í gær. Ekkert tilefni hefði verið til harkalegra viðbragða.
Á Facebook-síðu sinni sagði Logi að hann hefði orðið vitni af „óvenjulega harkalegum“ viðbrögðum lögreglu sem hann sagði beint að hópi í afar veikri stöðu. Hann minntist þess ekki að tiltölulega fámennum mótmælum hefði áður verið mætt með slíkum aðgerðum og sagðist ekkert hafa séð sem hefði gefið tilefni til slíkra aðgerða.
„Þetta bætist við sífelldar þrengingar reglugerða dómsmálaráðherra í málefnum hælisleitenda og flóttamanna og boðað frumvarps hennar um sömu hópa, sem eru mikil afturför.
Er nema von að maður spyrji á hvað leið stjórnvöld eru og hvort hún sé farin með samþykki VG?“ skrifaði Logi.
Í dag varð ég vitni að óvenju harkalegum viðbrögðum lögreglu, gagnvart hóp í afar veikri stöðu, sem hugðist tjalda á...
Posted by Logi Einarsson on Monday, March 11, 2019