Matvöruverslunin Krónan hefur náð draga úr matarsóun í verslunum sínum um rúmlega helming á einu ári með því að að veita afslátt á vörur sem eru á síðasta söludag.
Auk þess hefur verslunin dregið úr sóun á pappa með því að hætta útsendingu á vikulegum fjölpósti til íslenskra heimila og með notkun fjölnota kassa fyrir innflutt grænmeti í stað pappakassa. Með þessum breytingum hefur verslunin náð að spara hátt í 300 tonn af pappa. Þetta er hluti af þeim skrefum sem Krónan hefur stigið til að draga úr umhverfisspori sínu.
Draga úr sóun á plasti og pappa
Krónan hefur gert úttekt á þeim skrefum sem stigin voru í umhverfismálum innan verslunarinnar í fyrra. Í fréttatilkynningu frá versluninni segir að með átakinu „Síðasti séns- minnkum matarsóun“ sem hófst árið 2016 hjá versluninni tókst Krónunni í sameiningu með viðskiptavinum sínum að minnka matarsóun í verslununum um rúmlega helming, eða 53 prósent, fyrsta árið.
Auk þess hefur Krónan stigið ýmis skref með það fyrir augum að minnka plastnotkun innan verslana. Þá tók verslunin 500.000 plastbakka úr umferð með því að færa allt hakk og hamborgara Krónunnar yfir í umhverfisvænni umbúðir úr pappa og endurvinannlegu plast í stað frauðplasts. Auk þess hætti verslunin að bjóða upp á einnota frauðplastbolla á kaffistofum starfsfólks og spara þannig 60.000 bolla árlega. Jafnframt hefur verslunin náð 25 til 50 prósent orkusparnaði með því að skipta út kælum í verslunum, taka upp led lýsingu og CO2 kælikerfi.
Í janúar síðastliðnum setti Krónan upp sérstakt afpökkunarborð fyrir viðskiptavini í tveimur verslunum sínum, í Lindum og úti á Granda. Viðskiptavinum gefst kostur á að skilja óþarfa umbúðir eftir í verslunum til að minnka heimilisruslið. Verslunin sér síðan til þess að umbúðirnar séu flokkaðar og endurunnar á réttan há
Leita af vélum til að pakka inn kjöti í umhverfisvænni umbúðir
Gréta María Grétarsdóttir, framkvæmdastjóri Krónunnar, segir að starfsfólk Krónunnar viti að hægt sé að hafa áhrif til góðs á samfélagið og telji það því mikilvægt að leggja sitt af mörkum. Hún segir að verslunin hafi nú þegar gert töluverðar breytingar á verslunum sínum og segir þau hvergi nærri hætt.
„Krónan hefur ýmis áform um það sem við viljum gera á komandi mánuðum og árum og leitum stöðugt nýrra leiða til að geta boðið viðskiptavinum okkar umhverfisvænni umbúðir. Þá erum við að leita að vélum til að pakka inn kjöti sem selt er í Krónunni í umhverfisvænni umbúðir og höfum þegar náð árangri með allt hakk og hamborgara Krónunnar sem er komið í umhverfisvænni umbúðir en áður. Krónan telur mikilvægt að eiga öflugt samstarf við birgja okkar, með samtali okkar allra finnum við lausnir og leiðir til að minnka umhverfisspor Krónunnar,“ er haft eftir Grétu Maríu í tilkynningunni.