Dómarar við Landsrétt hafa ákveðið að kveða enga dóma upp í þessari viku, en ástæðan er dómur Mannréttindadómstóls Evrópu í morgun. Samkvæmt honum var ólöglega staðið að skipun dómara við réttinn.
Í dómnum segir að Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra hafi brotið gegn landslögum með því að gera breytingar á lista yfir þá 15 dómara sem skipaðir voru án þess að rökstyðja þær með viðunandi hætti þrátt fyrir að hafa fengið ráðgjöf sérfræðinga um að hverjar afleiðingar ákvörðunar hennar gætu orðið. Sigríður fjarlægði ólöglega fjóra umsækjendur sem hæfisnefnd hafði lagt til að yrðu skipaðir og setti fjóra aðra í staðinn,eins og fram hefur komið í umfjöllun Kjarnans.
Í dómnum segir meðal annars: „Ferlið varð til þess að valda skaða á því trausti sem dómstóll í lýðræðislegu samfélagi þarf að vekja hjá almenningi og braut í bága við það grundvallaratriði að dómstóll sé löglegur, eina af meginreglum réttarríkisins.“
Dómarar við réttinn, fimmtán talsins, telja að dómurinn hafi áhrif á starf Landsréttar og alla dómara við réttinn, og því hefur þessi ákvörðun verið tekin.
Dómsmálaráðuneytið og Landsréttur eru nú að yfirfara dóminn og til hvaða bragðs á að taka, vegna hans.
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, hefur ekkert tjáð sig um málið í dag, frekar en Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins. Kjarninn leitaði viðbragða frá þeim en þau vildu ekkert tjá sig um málið að svo stöddu.