„Annað hvort er maður ráðherra eða ekki. Hún einfaldlega fer frá sem ráðherra og nýr ráðherra kemur í hennar stað. Það er svo auðvitað lögformlega sérstök ákvörðun á nýjan leik að setja hana inn aftur. Hins vegar getur það verið pólitísk samkomulag milli flokkanna að hún komi inn síðar. En það er auðvitað ekkert sem heitir stjórnskipunarlega að geyma stólinn fyrir einhvern.“
Þetta segir Eiríkur Bergmann Einarsson, prófessor í stjórnmálafræði, um afsögn Sigríðar Á. Andersen úr embætti dómsmálaráðherra fyrr í dag. Eiríkur er gestur Þórðar Snæs Júlíussonar, ritstjóra Kjarnans, í sjónvarpsþættinum 21 sem er á dagskrá klukkan 21:00 í kvöld.
Hægt er að sjá stiklu úr þætti kvöldsins hér að neðan:
Sigríður sagði af sér á blaðamannafundi sem boðaður var með skömmum fyrirvara fyrr í dag í dómsmálaráðuneytinu. Ástæðan fyrir afsögn hennar er Landsréttarmálið svokallaða og dómur Mannréttindadómstóls Evrópu í því sem hefur meðal annars orsakað að Landsréttur hefur ekki treyst sér til að dæma í málum út þessa viku hið minnsta.
Eiríkur bendir hins vegar á, líkt og áður sagði, að ekki sé hægt að stíga tímabundið til hliðar sem ráðherra. Búast má við því að boðað verði til ríkisráðsfundar í kvöld eða fyrramálið þar sem Sigríður fer úr ríkisstjórn og nýr ráðherra úr röðum Sjálfstæðisflokksins kemur inn í hana í staðinn.
Í viðtali kvöldsins fer Eiríkur ítarlega yfir atburði dagsins í íslenskri pólitík og þá fordæmalausu stöðu sem er uppi í Brexit.