Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hefur enn ekki tjáð sig við fjölmiðla vegna dóms Mannréttindadómstóls Evrópu sem birtur var í gærmorgun. Katrín mætti á þingflokksfund kl. 13 í dag og vildi ekki tjá sig en sagðist þó ætla að tala við frétta- og blaðamenn eftir fundinn sem ætti að ljúka núna milli kl. 14 og 15. Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, vildi ekki heldur tjá sig þegar hann mætti á þingflokksfund í dag.
Dómsmálaráðuneytið hefur boðað til blaðamannafundar í ráðuneytinu kl. 14:30 og munu línur þá væntanlega skýrast.
Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra sagði í fréttum í gær að hún teldi dóm Mannréttindadómstóls Evrópu ekki vera tilefni til þess að segja af sér en hinir ýmsu þingmenn hafa krafist afsagnar hennar. Í hádegisfréttum Bylgjunnar í gær sagðist hún áfram njóta trausts hjá ríkisstjórninni allri og hefur því ekki í hyggju að segja af sér. Hún sagði dóminn bæði vera óvæntan og fordæmalausan og þá komi líka á óvart að dómurinn hefði klofnað í afstöðu sinni til málsins.
Dómsmálaráðherra sagði jafnframt að verið væri að greina málið en benti á að dómurinn væri afar yfirgripsmikill. Hún sagði dóminn kunna að hafa áhrif um alla Evrópu. Auk þess sagði Sigríður að það væri mat bæði sérfræðinga í dómsmálaráðuneytinu og hjá ríkislögmanni að það væri tilefni til að skoða vandlega og alvarlega hvort ekki væri hægt að skjóta niðurstöðunni til yfirdómsins en slíkt þarf ríkið að gera innan þriggja mánaða.