Jón Guðmann Pétursson hefur sagt sig úr bankaráði Landsbankans. Þetta kemur fram í stuttri tilkynningu til kauphallar, þar sem Landsbankinn er með skráð skuldabréf.
Jón Guðmann var fyrst kjörinn í bankaráð Landsbankans hf. í apríl 2016 og hefur verið formaður endurskoðunarnefndar bankans.
Jóni Guðmanni er þakkað fyrir öflugt starf í þágu bankans á undanförnum árum í tilkynningunni.
Aðrir í bankaráðinu eru Helga Björk Eiríksdóttir, formaður, Berglind Svavarsdóttir, Einar Þór Bjarnason, Hersir Sigurgeirsson og Sigríður Benediktsdóttir.
Á fundi bankaráðs Landsbankans 6. mars síðastliðinn var ákveðið að fresta aðalfundi bankans, sem vera átti miðvikudaginn 20. mars 2019, „þar sem ekki hefur gefist nægur tími til að ganga frá endanlegum tillögum fyrir fundinn,“ eins og það er orðað í tilkynningu frá bankanum.
Ákveðið var að halda aðalfundinn fimmtudaginn 4. apríl. Boðað verður til fundarins með auglýsingu í samræmi við lög og samþykktir bankans.
Íslenska ríkið á stærstan eignarhlut í bankanum, 98,2 prósent. Bankinn sjálfur á 1,6 prósent og aðrir hluthafar, aðallega fyrrverandi og núverandi starfsmenn Landsbankans, eða 0,2 prósent hlut.
Deilt hefur verið um laun bankastjóra Landsbankans, Lilju Bjarkar Einarsdóttur, og bankastjóra Íslandsbanka, Birnu Einarsdóttur.
Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra, hefur farið fram það við stjórn Bankasýslu ríkisins að hún komi því á framfæri við stjórnir Landsbankans og Íslandsbanka með afdráttarlausum hætti að ráðuneytið telji að endurskoða eigi launaákvarðanir æðstu starfsmanna bankanna tafarlaust.
Þetta segir Bjarni í bréfi til stjórnar Bankasýslu ríkisins en þar fer hann fram á að brugðist verði við launaskriði æðstu stjórnenda bankanna með undirbúningi á breytingum á starfskjarastefnum sem lagðar verði fram á komandi aðalfundum bankanna.
Lilja Björk er með langsamlega lægstu launin meðal bankastjóra stærstu bankanna, 3,8 milljónir á mánuði, Birna Einarsdóttir var með 5,3 milljónir í fyrra og Höskuldur Ólafsson, bankastjóri Arion banka - sem er í einkaeigu -, var með 6,2 milljónir króna í mánaðarlaun í fyrra.
Landsbankinn er stærstur bankanna og skilaði mestri arðsemi á eigið fé í fyrra, eins og fjallað var um í fréttaskýringu á vef Kjarnans 14. febrúar síðastliðinn.