Stjórn Eimskips mun leggja til á komandi aðalfundi félagsins, sem er fram 28. mars næstkomandi, að hluti laun sem stjórnarmenn í félaginu þiggja verði lækkuð. Þannig munu laun stjórnarformanns ekki lengur verða tvöföld laun meðstjórnenda í stjórn heldur 1,5 sinnum þau laun. Stjórnarformaður Eimskipa mun því vera með 470 þúsund krónur í mánaðarlaun verði tillagan samþykkt í stað 620 þúsund króna sem hann hafði áður. Um er að ræða kjaraskerðingu upp á rúm 24 prósent.
Þá leggur stjórnin til að laun varaformanns stjórnarinnar verði lækkuð úr 470 þúsund krónum á mánuði í 450 þúsund krónur, og verði þannig lægri en laun stjórnarformanns. Launa annarra stjórnarmanna haldast óbreytt og verða 310 þúsund krónur á mánuði.
Breytingar urðu á stjórn Eimskipa í september í fyrra þegar Baldvin Þorsteinsson var kosinn stjórnarformaður. Þær breytingar urðu í kjölfar þess að Samherji keypti fjórðungshlut í félaginu, en Baldvin er sonur Þorsteins Más Baldvinssonar, forstjóra og annars aðaleiganda Samherja.
Skömmu síðar, í nóvember 2018, var tilkynnt um að Gylfi Sigfússon myndi láta af störfum sem forstjóri Eimskips eftir að hafa gegnt þeirri stöðu frá því í maí 2008, eða í rúman áratug.
Þann 16. janúar 2019 var síðan greint frá því að Vilhelm Már Þorsteinsson, frændi stjórnarformannsins, hefði verið ráðinn í starf forstjóra Eimskips. Hann hafði starfað hjá Íslandsbanka í tuttugu ár og síðast verið framkvæmdastjóri fyrirtækja og fjárfestingasviðs bankans.
Tveimur dögum síðar var send út tilkynning um umfangsmiklar skipulagsbreytingar hjá Eimskip. Á sama tíma var greint frá því að laun nýs forstjóra félagsins myndu „taka mið af þeirri áherslu stjórnar að lækka þurfi kostnað félagsins“. Gylfi Sigfússon var með 5,6 milljónir króna í laun á mánuði á árinu 2017.
Afkoma Eimskips var undir væntingum í fyrra. Hagnaður félagsins var rétt rúmur milljarður króna, en hafði verið um 2,3 milljarðar króna á árinu 2017. Þótt tekjur Eimskips hefðu aukist þá minnkaði framlegð, kostnaður jókst og afskrftir drógu afkomu ársins niður.