Fasteignafélagið Heimavellir er á leið úr kauphöll Íslands en hlutabréf félagsins hafa verið hluti af markaðnum frá því þau voru tekin til viðskipta í maí í fyrra.
Á aðalfundi félagsins í dag var samþykkt að afskrá félagið. Markaðsvirði félagsins hefur verið sveiflukennt, en á þessu ári hefur það hækkað um 2,4 prósent og er það nú 14,2 milljarðar króna.
Eigið fé félagsins í lok árs 2018 var 18,8 milljarðar króna og námu heildareignir félagsins, þar helst íbúðir í útleigu, 56,8 milljörðum króna, en skuldir 38 milljörðum.
Félög í eigu fjárfestanna Finns R. Stefánssonar og Tómasar Kristjánssonar lögðu upphaflega fram tillögu um afskráningu, hinn 1. febrúar. Þeir hafa ásamt framtakssjóðnum Alfa, Vörðu Capital ehf. og Eignarhaldsfélaginu VGJ ehf. boðið í 27% hlut í Heimavöllum, fyrir samtals fjóra milljarða króna, gegn því að félagið verði afskráð, að því er Viðskiptablaðið hefur greint frá.
Á aðalfundinum voru kosin í stjórn Árni Jón Pálsson, Erlendur Magnússon, Halldór Kristjánsson, Hildur Árnadóttir og Rannveig Eir Einarsdóttir.