Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingflokksformaður Pírata, segir það vera mikilvægt að sem allra flestir taki skýra afstöðu með Mannréttindadómstólnum nú þegar ráðist sé á trúverðugleika hans svo finna megi blóraböggul fyrir embættisafglöpum Sigríðar Andersen. Frá þessu greinir hún í stöðuuppfærslu á Facebook-síðu sinni í dag.
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, sagðist í gær líta svo á að niðurstaða Mannréttindadómstóls Evrópu í Landsréttarmálinu hefði komið honum í „opna skjöldu“ og það væri umhugsunarsefni hvort dómstólinn væri farinn að „stíga yfir línu“ með þeirri gagnrýni á íslenska stjórnsýslu sem birtist í dómnum. Hæstiréttur væri æðsti dómstóll Íslands, ekki Mannréttindadómstóll Evrópu.
Það er mikilvægt að sem allra flestir taki skýra afstöðu með Mannréttindadómstólnum nú þegar ráðist er á trúverðugleika...
Posted by Þórhildur Sunna Ævarsdóttir on Thursday, March 14, 2019
Ætlar að standa vörð um aðild Íslendinga að MDE
Kolbeinn Óttarsson Proppé, þingmaður Vinstri grænna, sagðist í viðtali í Bítinu á Bylgjunni í morgun vera algjörlega ósammála þeirri afstöðu sem Bjarni hefur tekið gagnvart Mannréttindadómstól Evrópu.
Í frétt Vísis um málið kemur fram að Kolbeinn hafi tekið af allan vafa um það hvort ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur væri með orðum dómsmálaráðherra og fjármálaráðherra að undirbúa jarðveginn til að segja Ísland úr MDE.
„Nei, ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur ætlar ekki að gera það. Það er þá bara hægt að afgreiða það. Ég er algjörlega sammála því að Mannréttindasáttmálinn og Mannréttindadómstóllinn er einn af hornsteinum réttargæsluvörslu fyrir mannréttindi í okkar heimshluta og við eigum að vera stoltir aðilar að honum,“ sagði Kolbeinn.
Hann hefði um langt skeið dáðst að störfum MDE og ekki síst í gegnum störf sín sem blaðamaður og bætti því við að blaðamenn hefðu í auknum mæli sótt réttindi sín þangað. Kolbeinn sagðist ætla að standa vörð um aðild Íslendinga að MDE og hygðist gera það áfram. Hann sagði að fjármálaráðherra þyrfti sjálfur að svara fyrir sín orð.
Slæmt þegar ráðherra kastar rýrð á dómstólinn
Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, sagði á Facebook í gærkvöldi að henni fyndist mjög slæmt þegar formaður stærsta stjórnmálaflokks Íslands og ráðherra í ríkisstjórn leyfði sér að fara inn á mjög varasamar brautir í viðbrögðum sínum við dómi MDE til að planta inn efasemdum um dómstólinn og kasta rýrð á hann.
„Þegar hann spyr áleitna spurninga um túlkunarvald Mannréttindadómsstóls Evrópu og hvort hann hafi „stigið yfir línuna“ og fleira, er hann á góðri leið með að stilla sér upp með hægri sinnuðum þjóðernispópulistaflokkum Evrópu sem hafa verið að grafa undan lýðræði og mannréttindabaráttu í álfunni. Yfir hvaða línu spyr ég á móti? Við höfum ekki „framselt túlkunarvald yfir íslenskum lögum til Evrópu“ eins og Bjarni spyr og ýjar sterklega að,“ segir hún á Facebook.
Rósa Björk segir jafnframt MDE ekki vera ESB, heldur hafi Ísland orðið aðili að Evrópuráðinu 1950 og séu Íslendingar í gegnum það aðilar að Mannréttindasáttmála Evrópu sem sé ein mesta réttarbót þegar kemur að mannréttindum sem Ísland hefur undirgengist og Íslendingar þar með viðurkennt að hafi lagagildi á Íslandi.
Mikilvæg að borgarar í aðildarríkjum Evrópuráðsins geti leitað til MDE
„Sáttmálinn hefur til að mynda rík túlkunaráhrif á mannréttindaákvæði stjórnarskrár Íslands og dómar Hæstaréttar hafa leitast við að túlka mannréttindaákvæði stjórnarskrárinnar í samræmi við ákvæði Mannréttindasáttmálans. Mannréttindadómstóll Evrópu var stofnaður árið 1959 á grundvelli Mannréttindasáttmálans og tryggir að aðildarríki Evrópuráðsins virði þau réttindi borgaranna sem kveðið er á um í sáttmálanum.
Það sem er mikilvægast er að borgarar í aðildarríkjum Evrópuráðsins geta leitað til dómstólsins telji þeir að stjórnvöld hafi beitt þá órétti. Um það snýst þetta mál sem dæmt var í gær og öll önnur mál fyrir dómnum. Ef dómstóllinn telur að ríki hafi brotið gegn ákvæðum sáttmálans þá dæmir hann í málinu. Það gerðist í gær. Og okkur, sem aðildarríki Evrópuráðsins og lýðræðisríki sem ber virðingu fyrir mannréttindum, ber skylda til að fara eftir úrskurðum hans. Berum áfram virðingu fyrir mannréttindum og þeim skuldbindingum sem við höfum undirgengist. Gagnvart öllum borgurum, líka fólki á flótta sem hingað koma til að leita verndar okkar. Og þó að Sjálfstæðisflokkurinn þurfi að fórna einum ráðherra, þá gröfum við ekki undan þeim mikilvægu skyldum okkar sem eru miklu stærri og mikilvægari en eitt stykki ráðherradómur,“ segir Rósa Björk.
RÁÐHERRAR OG MANNRÉTTINDADÓMSTÓLL EVRÓPU Það er gríðarlega þarft að dómsmálaráðherra hafi vikið úr embætti og tekið þar...
Posted by Rósa Björk Brynjólfsdóttir on Wednesday, March 13, 2019
Þórhildur Sunna segir í stöðuuppfærslu sinni að það hafi glatt hana mjög að sjá kollega sinn Kolbein Óttarsson Proppé koma dómstólnum til varnar í morgun, og Rósu Björk Brynjólfsdóttur í gær. „Takk fyrir það kæru félagar,“ segir hún.