Björgólfur Jóhannsson var kjörinn í stjórn tryggingarfélagsins Sjóvár á aðalfundi félagsins í dag, og tók við hlutverki stjórnarformanns eftir að stjórnin hafði skipt með sér verkum.
Aðrir í stjórn eru Heimir V. Haraldsson, Hildur Árnadóttir, Hjördís E. Harðardóttir og Ingi Jóhann Guðmundsson.
Í varastjórn voru sjálfkjörin Erna Gísladóttir, sem verið hefur stjórnarformaður Sjóvá síðan 2011 í stjórn frá árinu 2009, og Garðar Gíslason.
Fundurinn samþykkti tillögu stjórnar um arðgreiðslu sem nemur 0,47 krónum á hlut fyrir rekstrarárið 2018 eða um 650 milljónir króna. Útborgunardagur arðs er 28. mars 2019.
Björgólfur sagði upp störfum hjá Icelandair síðastliðið haust, og vildi með því axla ábyrgð á starfsemi félagsins og ákvörðunum sem meðal annars leiddu til þess að afkomuáætlun gekk ekki eftir og niðurstaðan varð verri en búist var við.
Síðan þá hefur hann tekið sæti í stjórn Festi og er jafnframt stjórnarformaður Íslandsstofu. Þá situr hann einnig í stjórn Gjögur, útgerðarfyrirtækis.
Markaðsvirði Sjóvár er um 23,3 milljarðar króna, en félagið skilaði um 650 milljóna króna hagnaði á síðasta ári.
Eigið fé félagsins var 13,8 milljarðar króna í lok árs.
Stærsti hluthafi Sjóvár er SVN eignafélag ehf. með um 13,6 prósent hlut, en það félag er í eigu Síldarvinnslunnar, sem síðan er með Samherja sem stærsta eiganda, með 45 prósent hlut.