Fjörtíu og níu manns hafa látist eftir skotárásir í tveimur moskum í borginni Christchurch í Nýja Sjálandi í nótt. Samkvæmt frétt BBC hafa að minnsta kosti 20 manns særst til viðbótar.
Hundruð voru í moskunum þegar árásirnar voru gerðar. Vitni segja árásarmenn hafa skotið á það sem fyrir þeim var og flúið áður en viðbragðsaðilar komu á staðinn.
Maður á þrítugsaldri hefur verið handtekinn og ákærður fyrir morð og mun vera leiddur fyrir dómara á sunnudaginn. Ástralski forsætisráðherrann, Scott Morrison, segir að meintur árásarmaður sé ástralskur ríkisborgari og „öfga-hægri hryðjuverkamaður“.
Auk hans hafa tveir menn og ein kona verið tekin höndum, samkvæmt lögreglustjóranum, Mike Bush. Hann segir að eitt þeirra hafi þó ekki verið bendlað við atvikið en lögreglan sé að vinna í því að finna út hvort tengsl séu milli hinna tveggja.
Ekkert þeirra sem hafa verið handtekin voru á lista yfirvalda yfir grunaða hryðjuverkamenn eða líklega til grimmdarverka.
Forsætisráðherra Nýja Sjálands, Jacinda Ardern, segir ekki hægt að lýsa árásunum öðruvísi en sem hryðjuverkum.
Samkvæmt vef Guardian byrjaði allt í Masjid Al Noor moskunni í miðborginni klukkan 13:40 að staðartíma. Þangað réðist inn maður vopnaður byssu og skaut á alla sem fyrir honum urðu. Skömmu síðar var greint frá skotárás í annarri mosku í borginni. Lögreglan greindi frá því á blaðamannafundi í nótt að nokkrir bílar fullir af sprengjum hafi fundist í borginni, en sprengjurnar hafi allar verið aftengdar.
Forsætisráðherrann ávarpaði þjóðina í nótt. Hún sagði mörg fórnarlambanna mögulega vera innflytjendur í landinu, jafnvel flóttamenn. Þeir hafi valið að gera Nýja Sjáland að heimalandi sínu, og Nýja Sjáland sé þeirra heimaland. Árásarmennirnir sem ákváðu að beita ofbeldi af þessu tagi séu hins vegar ekki Nýsjálendingar. Þannig hegðun sé ekki liðin í Nýja Sjálandi. Eftir ávarpið fór hún á fund ríkisstjórnar sinnar og öryggisstofnana í Wellington.