Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra hafa sent samúðarkveðjur á Twitter vegna hryðjuverkanna í borginni Christchurch í Nýja Sjálandi í nótt.
Fjörtíu og níu manns hafa látist eftir skotárásir í tveimur moskum í borginni Christchurch í Nýja Sjálandi í nótt.
Katrín segist vera miður sín og harmi slegin vegna tilgangslauss ofbeldis í Christchurch. Hún sendir forsætisráðherra Nýja Sjálands, Jacinda Ardern, samúðarkveðjur og allt ljós heimsins frá íslensku þjóðinni.
Shocked and heartbroken over the senseless violence in #Christchurch. Dear @jacindaardern, I send you my deepest sympathies and all the light in the world from the people of Iceland.
— Katrín Jakobsdóttir (@katrinjak) March 15, 2019
Guðlaugur Þór segist vera hryggur yfir hinum hræðilegu hryðjuverkaárásum í Christchurch. „Hugur okkar er hjá fjölskyldum fórnarlambanna og íbúum Nýja Sjálands.“
We are deeply saddened by the horrifying terrorist attack in #Christchurch. Our thoughts are with the families of the victims and the people of New Zealand.
— Guðlaugur Þór (@GudlaugurThor) March 15, 2019
Hundruð voru í moskunum þegar árásirnar voru gerðar. Ástralski forsætisráðherrann, Scott Morrison, segir að meintur árásarmaður sé ástralskur ríkisborgari og „öfga-hægri hryðjuverkamaður“.
Maður á þrítugsaldri hefur verið handtekinn og ákærður fyrir morð og mun vera leiddur fyrir dómara á sunnudaginn.