Eva Cederbalk, sem hefur gegnt stjórnarformennsku í Arion banka frá árinu 2017, gefur ekki kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu á aðalfundi bankans sem fram fer næsta miðvikudag, 20. mars, en tilnefningarnefnd bankans leggur til að Brynjólfur Bjarnason verði næsti stjórnarformaður bankans.
Brynjólfur er varformaður núverandi stjórnar, formaður endurskoðunarnefndar stjórnar og situr í lánanefnd stjórnar.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá bankanum til kauphallar, en bankinn er skráður á markað bæði á Íslandi og í Svíþjóð.
Måns Höglund gefur heldur ekki kost á áframhaldandi setu.
Í framboði til stjórnarsetu, auk Brynjólfs, eru þau Benedikt Gíslason, Herdís Dröfn Fjeldsted, Liv Fiksdahl, Paul Richard Horner, Renier Lemmens og Steinunn Kristín Þórðardóttir.
Leggur tilnefningarnefnd til að þau verði öll kjörin í stjórn bankans en þau Fiksdahl, Horner og Lemmens koma ný inn í stjórnina.
Í tilkynningu segir Cedebalk að þegar hún hafi tekið við sem stjórnarformaður hafi legið fyrir að skrá bankann á markað. „Því verki lauk farsællega síðastliðið sumar þegar bankinn var skráður í kauphöll bæði á Íslandi og í Svíþjóð. Ég er stolt af því að hafa verið þátttakandi í þeirri mikilvægu vegferð,“ segir Cedebalk.
Markaðsvirði Arion banka hefur hækkað undanfarna daga, en á þessu ári hefur það hækkað um 7,94 prósent. Markaðsvirði bankans er nú 155 milljarðar króna, en eigið fé hans nam í árslok í fyrra 200,9 milljörðum króna.