Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, gagnrýnir orð Friðriks Sophussonar, stjórnarformanns Íslandsbanka, í Fréttablaðinu í dag þar sem hann segir það ekkert smámál að gera breytingar á launum bankastjórans, Birnu Einarsdóttur.
Sólveig Anna segist ekki geta orða bundist í stöðuuppfærslu á Facebook í dag. „Það var algjört smámál að lækka launin mín um 300.000 krónur. Þið mynduð ekki trúa því hvað það var auðvelt. Ég hugsaði um það í smá tíma og framkvæmdi svo. Bókstaflega svona einfalt,“ skrifar hún.
Hún tók á sig 300 þúsund króna launalækkun í október síðastliðnum en laun hennar fóru úr 1,170 þúsund krónum í 870 þúsund krónur á mánuði.
Ég bið öll agalegs forláts en ég fæ ekki orða bundist á þessum fallega morgni þegar sjálft undursamlegt og blessað vorið...
Posted by Sólveig Anna Jónsdóttir on Friday, March 15, 2019
Kjarninn greindi frá þann 13. mars síðastliðinn að laun bankastjóra ríkisbankanna, Íslandsbanka og Landsbankans, yrðu lækkuð. Þetta kom fram í bréfi Lárusar Blöndal, formanns Bankasýslu ríkisins, og Jóns Gunnars Gunnarssonar, forstjóra stofnunarinnar, til Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra.
Í bréfinu segir að „frá og með 1. apríl n.k. verða laun Birnu Einarsdóttur, bankastjóra Íslandsbanka 3.650.000 kr. á mánuði án hlunninda. Í þessu sambandi er vert að benda á að laun bankastjóra án hlunninda, sem eru nú 4.200.000 kr. á mánuði námu 3.850.000 kr. á mánuði þegar ríkissjóður eignaðist allt hlutafé í bankanum árið 2016.“
Telur sátt hafa ríkt um laun Birnu
Friðrik segir aftur á móti í Fréttablaðinu sátt hafa ríkt um laun Birnu innan stjórnar, hjá bankastjóranum og Bankasýslu ríkisins.
Hann benti á að laun Birnu hefðu lækkað að hennar frumkvæði um fjórtán prósent í upphafi árs. Með ákvörðuninni nú hefðu laun hennar lækkað um nærri fjórðung síðan ríkið eignaðist bankann. Launavísitalan hefði hækkað um tæp 23,6 prósent á sama tímabili.
„En okkur hefur þótt staða Íslandsbanka sérstök og öðruvísi en hjá öðrum því sögulega hefur bankinn ekkert verið í eigu ríkisins. Hann var ekki einn þeirra sem voru einkavæddir um síðustu aldamót og Íslandsbanki og forverar hans verið í eigu einkaaðila talsvert langt aftur í tímann. Bankinn starfar auðvitað á samkeppnismarkaði og sá markaður er alltaf að breytast og það hefur meðal annars ráðið launasetningunni hingað til,“ segir Friðrik.