Starfsgreinasamband Íslands (SGS)mun slíta viðræðum sínum við Samtök atvinnulífsins ef samtökin leggja ekki fram nýjar hugmyndir eða viðbrögð á næstu dögum. Viðræðunefnd sambandsins hefur fengið fulla heimild til að lýsa yfir árangurslausum viðræðum þrátt fyrir milligöngu Ríkissáttasemjara og að slíta viðræðum komi slíkar ekki fram.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Starfsgreinasambandinu. Þar segir að undanfarnar þrjár vikur hafi samningaviðræður um nýjan kjarasamning Starfsgreinasambandsins og Samtaka atvinnulífsins farið fram undir verkstjórn Ríkissáttasemjara. „Forsendur viðræðna hafa verið umræða um nýja launatöflu, styttingu vinnuvikunnar, samræmingu á vinnumarkaði og fleiri atriði.
Í viðræðum undanfarinna vikna hefur ýmislegt áunnist, annað þokast í rétta átt og sumt er óleyst og því virðist ekki vera lengra komist að sinni. Sú vinna sem hefur verið unnin er þó gagnleg og nýtist vonandi framhaldinu.
Samninganefnd SGS samþykkir að komi ekki nýjar hugmyndir eða viðbrögð frá Samtökum atvinnulífsins á næstu dögum hafi viðræðunefndin fulla heimild til lýsa yfir árangurslausum viðræðum þrátt fyrir milligöngu Ríkissáttasemjara og slíta viðræðum.“
Starfsgreinasamband Íslands vísaði kjaradeilu sinni við Samtök atvinnulífsins til ríkissáttasemjara 21. febrúar síðastliðinn.
Starfsgreinasambandið fer með umboð fyrir eftirtalin 16 aðildarfélög; AFL Starfsgreinafélag, Aldan stéttarfélag, Báran stéttarfélag, Drífandi stéttarfélag, Eining-Iðja, Framsýn stéttarfélag, Stéttarfélag Vesturlands, Stéttarfélagið Samstaða, Verkalýðsfélag Snæfellinga, Verkalýðsfélag Suðurlands, Verkalýðsfélag Vestfirðinga, Verkalýðsfélag Þórshafnar, Verkalýðsfélagið Hlíf, Verkalýðs- og sjómannafélag Bolungarvíkur, Verkalýðs- og sjómannafélag Keflavíkur og nágrennis og Verkalýðs- og sjómannafélag Sandgerðis.
Settu fram kröfugerðir í október
Starfsgreinasambandið sendi frá sér kröfugerðir gagnvart Samtökum atvinnulífsins og stjórnvöldum fyrir kjaraviðræðurnar 10. október í fyrra og í henni var gerð krafa um 425 þúsund króna lágmarkslaun og víðtækar kerfisbreytingar, bæði á vinnuumhverfi launafólks og skattastefnu stjórnvalda.
Í kröfugerðinni gagnvart Samtökum atvinnulífsins kom meðal annars fram:
„Lágmarkslaun verði 425.000 krónur í lok samningstímans að því gefnu að ekki komi til umtalsverðra skattkerfisbreytinga, þannig að sköttum verði létt af lægstu launum og lægri millilaunum.
Launataflan verði endurskoðuð og einfölduð verulega og skilgreint sé hundraðshlutfall á milli flokka og þrepa. Fjöldi þrepa verði aukinn þannig að starfsaldursþrep miðist við eins árs, 3ja ára, 7 ára og 10 ára þrep.
Ungmennalaun yfir 18 ára aldri verði afnumin en þess í stað miðist grunnlaun við 18 ára aldur. Ábyrgð og álag verði metið til launa með skilgreindu hundraðshlutaálagi. Með ábyrgð og álagi er meðal annars átt við þjálfun nýrra starfsmanna, álag sem fylgir manneklu á vinnustað, álag vegna tilfinningavinnu, ábyrgð á öryggi viðskiptavina, farþega og vinnufélaga.
Álag fyrir vaktavinnu á tímabilinu frá miðnætti til kl. 8 skal vera hærra. Orlofs- og desemberuppbætur taki sérstökum hækkunum. 1.maí verði skilgreindur sem stórhátíðardagur,“ segir í kröfugerðinni.
Í kröfugerðinni gagnvart stjórnvöldum var gerð krafa um hækkun á fjármagnstekjuskatti og tvöföldun á persónuafslætti. „Lægstu laun verði skattfrjáls með tvöföldun persónuafsláttar, sem verði síðan stiglækkandi með hærri tekjum, þannig að lækkun skatta á lág- og millitekjuhópa verði m.a. fjármögnuð með hærra skattaframlagi þeirra tekjuhæstu. Álagning tekjuskattkerfisins á lægri og hærri tekjuhópa verði þar með líkari því sem tíðkast á hinum Norðurlöndunum. Sá persónuafsláttur sem um semst þarf að fylgja launaþróun þannig að ekki dragi jafnt og þétt úr tekjujöfnunaráhrifum skatta- og bótakerfisins eins og varð á síðustu áratugum.“