Íslandspóstur tapaði 293 milljónum á árinu 2018 en hagnaður var 216 milljónir árið á undan. Forstjóri fyrirtækisins, Ingimundur Sigurpálsson, segir í tilkynningu að meginástæða tapsins sé samdráttur í bréfasendingum og að verðbreytingar hafi ekki orðið á grunnþjónustu fyrirtækisins, eins og að var stefnt.
Rekstrarhagnaður samstæðunnar fyrir afskriftir, EBITDA, nam um 71 milljón og er EBITDA hlutfallið 0,8 prósent en var um 8,3 prósent árið áður.
Ingimundur segir í tilkynningu að munurinn á afkomu fyrirtækisins, í samanburði við áætlun, hafi verið tæplega 500 milljónir króna.
„Fjárhagsleg afkoma Íslandspósts var önnur en að var stefnt á árinu 2018. Meginforsendur
fjárhagsáætlunar ársins gengu eftir að öðru leyti en því, að verðbreytingar á
einkaréttarbréfum, sem nauðsynlegar voru til þess að standa undir alþjónustuskyldu, náðu
ekki fram að ganga og 14,4 % samdráttur varð í bréfasendingum innan einkaréttar milli ára, en
hlutfallslega var það um tvöfalt meiri samdráttur en gert var ráð fyrir í áætlun.
Það leiddi til 517 mkr. lægri tekna en árið áður auk þess sem tekjur af bréfa- og pakkasendingum til útlanda drógust saman um 129 mkr. milli ára. Bókfært tap varð því af rekstri Íslandspósts, sem nam 293 mkr. á árinu 2018 í stað 201 mkr. hagnaðar, sem fjárhagsáætlun ársins gerði ráð fyrir,“ segir í tilkynningunni.
Þá segir að hann að fyrirkomulag fjármögnunar fyrirtækisins sé ótækt og það takmarki starfsemi fyrirtækisins og rekstur, og komi í veg fyrir að hægt sé að bregðast við erfiðleikum, meðal annars að hækka laun þeirra sem lægstu launin hafa í fyrirtækinu.
Í skýrslu Copenhagen Economics um starfsemi Íslandspósts, sem Ingimundur vitnar til í tilkynningu sinni, segir að það verði að koma til breytingar á lögum og reglum, til að hægt sé að sinna póstþjónustu með þeim hætti sem þarf.
Heildareignir Íslandspósts voru 6,3 milljarðar í árslok.
Ítarleg tilkynning Ingimundar fer hér að neðan í heild sinni: Ingimundur Sigurpálsson, forstjóri Íslandspósts,
„Fjárhagsleg afkoma Íslandspósts var önnur en að var stefnt á árinu 2018. Meginforsendur
fjárhagsáætlunar ársins gengu eftir að öðru leyti en því, að verðbreytingar á
einkaréttarbréfum, sem nauðsynlegar voru til þess að standa undir alþjónustuskyldu, náðu
ekki fram að ganga og 14,4 % samdráttur varð í bréfasendingum innan einkaréttar milli ára, en
hlutfallslega var það um tvöfalt meiri samdráttur en gert var ráð fyrir í áætlun.
Það leiddi til 517 mkr. lægri tekna en árið áður auk þess sem tekjur af bréfa- og pakkasendingum til útlanda drógust saman um 129 mkr. milli ára. Bókfært tap varð því af rekstri Íslandspósts, sem nam 293 mkr. á árinu 2018 í stað 201 mkr. hagnaðar, sem fjárhagsáætlun ársins gerði ráð fyrir.
Í mars 2018 skilaði ráðgjafarfyrirtækið Copenhagen Economics greinargerð um mat á kostnaði
við póstþjónustu á Íslandi.
Í skýrslunni er m.a. lagt mat á umfang fjárhagslegrar byrði,
svokallaða alþjónustubyrði. Aðferðin sem fyrirtækið beitir er vel þekkt um allan heim og
uppfyllir hún kröfur um útreikning á alþjónustubyrði, sem settar eru fram í viðauka við
pósttilskipun Evrópusambandsins, sem póstþjónustu á Íslandi ber að fylgja.
Útreikningar Copenhagen Economics eru byggðir á tölum úr kostnaðarbókhaldi Íslandspósts
fyrir árið 2016. Þeir sýna, að grunnrekstur fyrirtækisins skilaði um 770 mkr. hagnaði á árinu
2016 en að um 650 mkr. af þeim hagnaði fóru í niðurgreiðslu á lögbundinni póstþjónustu. Ef
árið 2018 er skoðað út frá sömu forsendum skilaði grunnrekstur fyrirtækisins 607 millj. kr. í
hagnað á árinu en hreinn kostnaður við að veita lögbundna þjónustu var um 900 millj. kr. og
var því niðurstaðan 293 millj. kr. tap. Slík ráðstöfun hagnaðar vinnur gegn
grundvallarhagsmunum félagsins. Hún takmarkar svigrúm stjórnenda til mikilvægra
rekstralegra ákvarðana, svo sem varðandi nauðsynlega þróunarstarfsemi, kaup og kjör
starfsmanna, einkum þeirra tekjulægstu, þar sem þörf er á verulegri breytingu, sem og
varðandi möguleika á verðlækkun á vörum og þjónustu, bæði þeirri sem bundin er einkarétti
sem og hinni sem boðin er á samkeppnismarkaði. Gildandi fyrirkomulag á fjármögnun alþjónustu hefur leitt til yfirvofandi rekstrarstöðvunar Íslandspósts að óbreyttri þjónustuskyldu. Slíkt fyrirkomulag geta stjórnendur hlutafélaga ekki búið við, enda er það með öllu á svig við skyldur þeirra samkvæmt ákvæðum laga um hlutafélög.
Þann 23. október síðastliðinn mælti samgönguráðherra fyrir frumvarpi að nýjum lögum um póstþjónustu. Núgildandi löggjöf var samþykkt árið 2002 og í ljósi þeirra breytinga, sem orðið hafa á rekstrarumhverfi póstþjónustu síðan, er afar brýnt að þau verði endurnýjuð og færð til samræmis við þriðju pósttilskipun Evrópusambandsins frá árinu 2008. Í því felst m.a. tilskilið afnám einkaréttar ríkisins á dreifingu áritaðra bréfa undir 50 g. Þá er í frumvarpinu opnað fyrir möguleika á fjármögnun á þeim hluta lögbundinnar póstþjónustu, sem ekki stendur undir kostnaði tengdum henni, og er það afar þýðingarmikið nýmæli, sem tryggja á póstrekendum eðlilega greiðslu fyrir veitta þjónustu. Nauðsynlegt virðist þó að lagatextinn kveði skýrar á um skyldu ríkisins til þess að gera þjónustusamning um þann hluta póstþjónustunnar, sem ekki á sér markaðslegar forsendur, þar sem óvíst er hvort póstrekandi lifi þann málsmeðferðartíma af, sem frumvarpstextinn ber með sér. Mikilvægt er að ný lög um póstþjónustu verði afgreidd á vorþingi 2019, svo sem áformað er, þannig að þau geti tekið gildi frá ársbyrjun 2020, eins og að er stefnt.
Við afnám einkaréttar er afar þýðingarmikið að fyrir liggi skýrar leikreglur um fyrirkomulag
póstdreifingar. Hugmyndin um einkarétt ríkisins á dreifingu bréfa allt að 50 g byggir á því að
tekjum einkaréttar er ætlað að standa undir annarri þjónustu, sem einkaréttarhafi veitir
eingöngu á grundvelli alþjónustuskyldu og ekki er hagkvæmt að veita á viðskiptalegum
forsendum. Því þarf að liggja fyrir hvernig stjórnvöld hyggjast tryggja póstþjónustu, sem
flutningaðilar hafa ekki forsendur til þess að sinna, hvernig verðlagningu þeirrar þjónustu verði
háttað og hvernig standa eigi undir kostnaði við að veita þá þjónustu lögum samkvæmt. Á
sama hátt þarf að samræma reglur og eftirlit með póstdreifingu og annarri vörudreifingu,
þannig að leiðrétt verði sú mismunun, sem nú er fyrir hendi eftir því hvort fyrirtæki er skilgreint
sem póstfyrirtæki eða flutningafyrirtæki.“