„Í næstu kosningum mun valið standa á milli stefnu sem byggir á íhaldssemi og stöðugleika hinnar óbreyttu skiptingar gæða eða framsækni, frumkvæði og stöðugleika sem byggir á jafnara samfélagi þar sem allir hafa betri tækifæri.“
Þetta er meðal þess sem Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, sagði í ræðu sinni á flokksstjórnarfundi flokksins sem fram fer á Bifröst um helgina.
Logi sagði að leið Samfylkingarinnar væri að byggja upp samkeppnishæft velferðarþjóðfélag að norrænni fyrirmynd á Íslandi þar sem umhverfi barnafólks væri hagfellt, fæðingarorlof lengra, húsnæðismarkaður stöðugri og matarkarfan ódýrari. „Þar sem jöfn tækifæri eru til náms og mannauður og hugvit samfélagsins nýtist sem best í grænu hagkerfi. Þar sem barist er gegn hvers konar mismunun, þátttaka og velferð innflytjenda er tryggð og tekið er vel á móti fólki á flótta. Áskoranir eru miklar og það er ekki hægt að mæta þeim öllum á stuttum tíma. En við fyrsta skrefið er að snúa skútunni frá hægri og taka nýjan réttari kúrs.“
Logi sagði að uppi væru tímar þar sem stjórnmálafólk yrði að vera hugrakkt, með skýra framtíðarsýn en líka að vera meðvitað um dagleg vandamál fólks. „Ég finn til mikillar ábyrgðar, því ég veit að væntingarnar eru miklar til okkar í Samfylkingunni. En ég er líka sannfærður um að við getum risið undir þeim.“
Raunalegt að horfa á Vinstri græn kyngja hverju málinu á fætur öðru
Logi fór um víðan völl í ræðunni og fjallaði meðal annars í löngu máli um stöðu sitjandi ríkisstjórnar undir forsæti Katrínar Jakobsdóttur. Hann sagði að á meðan að Sjálfstæðisflokkurinn léki lausum hala í efnahagslífinu væri beinlínis raunalegt að horfa á Vinstri græn kyngja hverju málinu á fætur öðru, sem þau áður töluðu gegn. Hann nefndi þar áframhaldandi hvalveiðar, grimmari útlendingastefnu, rýmri rétt til hatursorðræðu og óréttlátra skattkerfi. „Það sem stjórnarflokkarnir hafa þó verið samstíga um er íhalds- og afturhaldsemi. Varðstöðu um krónuna og gamaldags atvinnupólitík. Ég hélt í einfeldni minni að Vinstri græn og Sjálfstæðisflokkurinn væru eðlisólíkir flokkar en líklega hef ég haft fullkomlega rangt fyrir mér.
Formaður Samfylkingarinnar sagði að Ísland þyrfti nýja forystu sem átti sig á því að sómasamleg lífskjör allra sé forsenda þeirrar sóknar sem íslenskt samfélag yrði að ráðast í til að tryggja samkeppnishæfi þjóðarinnar á tímum mikilla breytinga.
Ísland þarf ekki jafnvægi Sjálfstæðisflokksins
Logi sagði að Ísland þyrfti hins vegar ekki jafnvægi Sjálfstæðisflokksins sem byggði á því að örfáir sitja öðru megin á vegasaltinu, með þorra gæðanna en allur almennings héldi jafnvægi hinum megin.
Þá byggði stöðugleiki Sjálfstæðisflokksins á íhaldssemi og kyrrstöðu. Og stöðnuðum samfélögum myndi ekki vegna vel til lengdar. „Við þurfum framþróun og sókn sem byggir á almennri þátttöku fólks og hún næst ekki nema allir búi við sómasamleg lífskjör. Fyrir utan mannvirðinguna sem í því felst hefur fámennt samfélag ekki efni á öðru en veita öllum tækifæri á að þroska styrkleika sína og örva þá til þess. Annað er ótrúleg sóun verðmæta.
Ástæða þess að börn sem alast upp á efnameiri heimilum eru líklegri til að vera með háar tekjur síðar á ævinni og skýringin á því að færri konur sitja í stjórn fyrirtækja hefur ekkert með upplag einstaklingsins að gera, heldur samfélagsgerð sem byggir ekki á nægjanlega miklu jafnrétti og réttlæti. Þó staðreyndin sé ef til vill sú að við fæðumst með merkilega þróaðan persónuleika ræður umbúnaðurinn fram á fullorðinsár hvernig við náum að spila úr honum.“
Fjöldi landsmanna líði skort
Logi sagði að núverandi staða gæfi ekki góð fyrirheit. Kjörtímabilið væri ekki hálfnað og landið stæði andspænis flókinni vinnudeilu og erfiðri stöðu efnahagsmála.
Stöðugur vinnumarkaður endurspeglist í stórum og smáum fyrirtækjum, sem búi við öruggt rekstrarumhverfi, heilbrigða samkeppni og geti borgað starfsfólki góð laun. „Fólk á lægri tekjum naut síður efnahagsbata síðustu ára, ekki síst vegna þess að stjórnvöld grófu ýmist kerfisbundið undan velferðarkerfinu og innviðum eða létu hvort tveggja drabbast niður með vanrækslu, í góðæri.“
Í síðustu stjórnarmyndunarviðræðum vöktum við sérstaka athygli á því að næstu ríkisstjórn yrði að mynda um almenna lífskjarasókn – ella skapaðist erfið staða á vinnumarkaði. Það er nú komið á daginn. - Vinstri-græn og Framsókn völdu aðra samstarfsaðila og því situr ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins undir forystu Katrínar Jakobsdóttur.“
Gagnrýndi skattaútspil ríkisstjórnarinnar
Í ræðu Loga kom fram að það væri staðreynd að byrðar lág- og meðaltekjufólks á Íslandi hefðu aukist meira en í samanburðarlöndum og langt umfram skatta á hæstu launin. Nýlegt skattaútspil ríkisstjórnarinnar bæri þess skýr merki að ekki væru áform um að ráðast gegn þeirri stöðu. „Skattabreyting sem skilar ráðherra sömu krónutölu og þernu á hóteli var blaut tuska í andlitið á launafólki. Sem var fylgt eftir með kaldri gusu þegar í ljós kom að frysta ætti persónuafslátt samhliða, sem gera skattalækkunina líklega að engu. Millitekjuhópunum var gefið langt nef og skerðast barnabætur þeirra skarpar en áður og vaxtabótakerfið er nánast sagnfræði. Með veikari krónu, hærri vöxtum og verðlagi gæti almenningur á endanum staðið uppi með kjararýrnun.“
Logi sagði freistandi að kenna Sjálfstæðisflokknum einum um stöðuna en sagði
hægri stefnuna virðast dafna ágætlega undir verndarvæng Framsóknarflokksins og forsæti Vinstri grænna. „Sú harka sem nú er á vinnumarkaði er í boði ríkisstjórnar sem neitar að horfast í augu við það að hér búa hópar fólks; bótaþegar, lág- og meðaltekjufólk, námsmenn, við aðstæður sem ekki eru bjóðandi í ríku landi. Afleiðingar vanrækslu síðustu ára hefur leitt til félagslegs óstöðugleika og fullkomin afneitun núverandi ríkisstjórnar gæti hugsanlega leitt til þess að atvinnulífið taki allan skellinn til að brúa það sem ríkisstjórnin hefur hunsað. Það er óforskammað að stilla hlutunum þannig upp að launafólk kalli hamfarir yfir samfélagið, með því að beita verkföllum. Ábyrgð á slæmri stöðu láglaunafólks liggur annars staðar – m.a. hjá stjórnvöldum sem hafa leyft ójöfnuði að grassera og holað að innan velferðarkerfið.“