Ísland og Bretland hafa náð samkomulagi um að halda óbreyttum forsendum í milliríkjaviðskiptum fari svo að Bretland yfirgefi Evrópusambandið án samnings.
Þetta staðfestir Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra við mbl.is.
Ísland hefur í gegnum tíðina verið í miklum viðskiptum við Bretland, einkum á sviði sjávarútvegs.
Samningurinn gerir ráð fyrir að ákvæði EES-samningsins sem snúa að viðskiptum milli ríkjanna verði óbreytt, segir í umfjöllun mbl.is, en sambærilegur samningur hefur verið gerður við Noreg.
Þannig verður engin breyting á gildandi tollum, né heldur tollalausum viðskiptum iðnaðarvara. Þá verða kvótar fyrir tollfrjáls viðskipti með landbúnaðar- og sjávarútvegsafurðir einnig óbreyttir. Samningurinn nær ekki til þjónustuviðskipta.
Í samtali við mbl.is segir Guðlaugur Þór að vinnan hafi gengið vel, og viðbrögð Breta verið jákvæð.
Ekki liggur ljóst fyrir í hvaða farveg Brexit mál fara nú í breska þinginu, en samkvæmt lögum á Bretland að yfirgefa Evrópusambandið 29. mars næstkomandi. Í tvígang hefur Brexit-samningi Theresu May, forsætisráðherra, verið hafnað og John Bercow, þingforseti í Bretlandi, hefur sagt að samningur verður ekki borinn upp til atkvæðis nema hann taki verulegum breytingum.