Björn Snæbjörnsson, formaður Starfsgreinasambandsins, segir það óneitanlega vera vonbrigði að samninganefnd sambandsins hafi slitið viðræðum við Samtök atvinnulífsins á fundi hjá ríkissáttasemjara nú rétt fyrir hádegi.
„Við lýstum yfir því að við teldum þetta árangurslausan fund þannig við slitum viðræðum. Aðalvandamálið snýst um þessi vinnutímamál sem við höfum verið að þróa á undanförnum vikum. Það er svolítið í því sem við getum ekki sætt okkur við og menn þurfa auðvitað að skoða betur. Þannig að það hefur ekki náðst sátt í þau mál,“ segir Björn Snæbjörnsson í samtali við RÚV.
Björn segir jafnframt að nú verði kallaður saman aðgerðarhópur innan Starfsgreinasambandsins þar sem þau skoða hvaða aðgerðum þau geta beitt. Hann reiknar með því að samninganefnd Starfsgreinasambandsins verði kölluð saman á mánudaginn til að fara yfir það plan.
Í frétt RÚV um málið kemur fram að þetta hafi verið þrettándi fundur Starfsgreinasambandsins og ríkissáttasemjara en deilunni var vísað þangað fyrir um þremur vikum.
Björn segir enn fremur að ef boðað verði til verkfalla verða þau ekki fyrr en seint í apríl eða byrjun maí, miðað við dagsetninguna í dag. „Þetta er ferill sem þarf að fara í gegnum og tekur dálítinn tíma.“
Myrkrið dimmast skömmu fyrir dagrenningu
Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir að þó að lýst hafi verið yfir árangurslausum samningafundi hjá Starfsgreinasambandinu haldi samtalið áfram.
Hann segir jafnframt að margt hafi áunnist í viðræðum við SGS en því miður hafi þau ekki náð saman að sinni. „En sú mikla vinna sem við höfum náð fram, hún mun vonandi nýtast síðar og er að sjálfsögðu ekki unnin fyrir gíg,“ segir Halldór Benjamín.
„Við höfum sagt að við leggjum strax fram það sem við teljum að sé grundvöllur lausnar. Það hefur gengið mjög vel með SGS á undanförnum vikum. Langflest hefur náðst að þróast í sameiningu. Þannig ég geri ráð fyrir að við getum tekið upp viðræður aftur með skömmum fyrirvara,“ segir hann.
Enn fremur telur hann að staðan sé tvísýn, myrkrið sé dimmast skömmu fyrir dagrenningu og nú sé mikilvægt að nýta næstu daga til að forða því að hér verði mikið efnahagslegt tjón í gegnum þær verkfallsaðgerðir sem búið er að boða.