Starfsgreinasamband Íslands hefur slitið viðræðum sínum við Samtök atvinnulífsins. Fundi samningsaðila hjá ríkissáttasemjara var slitið eftir rúmlega hálftíma og tilkynnti Björn Snæbjörnsson, formaður SGS, fjölmiðlum ákvörðunina fyrir utan fundarherbergið. Mbl.is greinir fyrst frá.
„Það barst ekkert nýtt tilboð frá Samtökum atvinnulífsins,“ sagði Björn í samtali við mbl.is. „Þetta þýðir að við förum í að kalla saman okkar aðgerðahóp og þar munum við taka ákvörðun um það hvernig við munum í framhaldinu skipuleggja okkur til þess að setja meiri þrýsting á að ná kjarasamningum,“ sagði Björn. Viðbúið er að allt að 20.000 félagsmenn fari í verkföll í apríl eða maí.
Í fréttum fyrir helgi kom fram að Starfsgreinasambandið myndi slíta viðræðum sínum við Samtök atvinnulífsins ef samtökin leggðu ekki fram nýjar hugmyndir eða viðbrögð á næstu dögum.
Viðræðunefnd sambandsins hafði fengið fulla heimild til að lýsa yfir árangurslausum viðræðum þrátt fyrir milligöngu Ríkissáttasemjara og að slíta viðræðum kæmu slíkar ekki fram.
Í tilkynningu frá Starfsgreinasambandinu sem send var út fyrir helgi kom fram að undanfarnar þrjár vikur hefði samningaviðræður um nýjan kjarasamning Starfsgreinasambandsins og Samtaka atvinnulífsins farið fram undir verkstjórn Ríkissáttasemjara. „Forsendur viðræðna hafa verið umræða um nýja launatöflu, styttingu vinnuvikunnar, samræmingu á vinnumarkaði og fleiri atriði.“
Í viðræðum undanfarinna vikna hefði ýmislegt áunnist, annað þokast í rétta átt og sumt hefði verið óleyst og því virtist ekki vera lengra komist að sinni. Sú vinna sem hefur verið unnin væri þó gagnleg og nýttist vonandi framhaldinu.