Jacinda Ardern, forsætisráðherra Nýja Sjálands, tilkynnti í sjónvarpsávarpi í nótt að ný og hert vopnalöggjöf taki gildi í Nýja Sjálandi í apríl næstkomandi. Bannað verður að selja, kaupa og eiga hálfsjálfvirka riffla og hríðskotariffla. Löggjöfin er kynnt í kjölfar ódæðisins í Christchurch í síðustu viku. Frá þessu er greint á vef Reuters.
Hindra kaup á slíkum vopnum þar til löggjöfin tekur gildi
Í ávarpi sínu sagði Ardern að í kjölfar hryðjuverksins þann. 15. mars síðastliðinn hefði sögu landsins verið breytt til frambúðar og nú verði byssulöggjöfunni einnig breytt. Fimmtíu manns létust í skotárás í tveimur moskum í borginni Christchurch í Nýja Sjálandi í síðustu viku. Árásarmaðurinn keypti byssurnar sínar með löglegum hætti og þar að auki hafði hann keypt margra skota magasín og fleiri hluti sem gerðu byssurnar hættulegri.
Ardern sagði að vinna við nýju löggjöfina væri nú þegar hafin og stefnt væri að hún tæki gildi þann 11. apríl næstkomandi. Með löggjöfinni verða öll hálfvirk skotvopn og hríðskotarifflar bannaðar. Auk þess sem allur búnaður sem er til þess fallinn að breyta venjulegum rifflum í eitthvað í líkingu við fyrrnefndar byssur verður ólöglegur. Í ávarpinu greindi Ardern einnig frá því að sett hafi verið bráðabirgðareglugerð sem tók gildi um leið og hún flutti ávarp sitt í nótt en henni er ætlað að hindra að nokkur geti fest kaup á slíkum vopnum þar til nýju lögin verða samþykkt.
Hún sagði að markmiðið væri að gera Nýja Sjáland að öruggari stað og hún sagðist sannfærð um að þessar aðgerðir nytu stuðnings þjóðarinnar, líka bænda og fleiri sem nota skotvopn við störf sín, enda beinist löggjöfin á engan hátt gegn þeim. Ljóst er að margir eiga vopn af því tagi sem nú á að banna en eigendum slíkra vopna verður gefinn frestur til að skila þeim til stjórnvalda sem greiða fyrir þau tiltekna upphæð.