Hvorki Öryrkjabandalag Íslands (ÖBÍ) né Alþýðusamband Ísland (ASÍ) ætla að skrifa undir skýrslu stjórnvalda um breytt framfærslukerfi almannatrygginga þrátt fyrir að fulltrúar beggja hafi tekið virkan þátt í vinnu samráðshópsins sem skrifaði skýrsluna.
Samráðshópurinn var skipaður af Ásmundi Einari Daðasyni, félags- og barnamálaráðherra, 18. apríl 2018. Hann átti upphaflega að ljúka störfum með skýrslu 1. október í fyrra en vinna hans hefur dregist á langinn. Hlutverk samráðshópsins um breytt framfærslukerfi almannatrygginga var að koma með tillögur að nýju greiðslukerfi sem styddi við markmið starfsgetumats. Nýju kerfi var ætlað að tryggja hvata til atvinnuþátttöku þar sem aukin áhersla er lögð á snemmtæka íhlutun, þverfaglega nálgun og samfellu í framfærslu.
Í tilkynningu frá ÖBÍ kemur fram að ástæður þess að bandalagið skrifi ekki undir skýrsluna séu þær að að lausir endar í starfinu séu of margir. „Mannsæmandi afkoma er ekki tryggð. Krónu-á-móti-krónu skerðing verður ekki afnumin skilyrðislaust. Ekki er tekið á samspili lífeyriskerfisins og almannatrygginga, vinnumarkaðsmálin óklár, og svona má áfram telja.“
Í frétt á heimasíðu ÖBÍ sem birt var í gær segir að núverandi ríkisstjórn ríghaldi í kröfu um krónu-á-móti-krónu skerðing verði ekki afnumin nema ÖBÍ fallist á að taka upp svokallað starfsgetumat og breiði faðminn á móti nýju framfærslukerfi almannatrygginga. „Það er ekki til umræðu að afnema óréttlætið. Það er bara „computer says no“.“
Þá gagnrýndi ÖBÍ einnig Ásmund Friðriksson, þingmann Sjálfstæðisflokksins, harðlega fyrir að segja í ræðustól á Alþingi á þriðjudag að ÖBÍ hefði hafnað því að afnema krónu-á-móti-krónu skerðingar. Ásmundur er einn þeirra sem situr í samráðshópnum um breytt framfærslukerfi almannatrygginga.
Í frétt á heimasíðu ÖBÍ segir að það sé sorglegt að hlusta á rangan og villandi málflutning Ásmundar og honum hafnað. „Krónu-á-móti-krónu skerðingu á að afnema strax án tillits til annarra breytinga. Hún ein og sér heldur þúsundum fjölskyldna í fátæktargildru og hana á að afnema eina og sér. ÖBÍ undirbýr nú málsókn á hendur ríkinu í því skyni að aflétta þessu kerfisbundna ofbeldi.“