Ríkisstjórnin hyggst leggja sitt af mörkum í yfirstandandi deilur á vinnumarkaði með kostnaðarsömum aðgerðum fyrir lágtekjufólk og fyrstu kaupendur á húsnæðismarkaði. Auk þess býst hún við „myndarlegri aukningu“ í fjárfestingum hins opinbera. Þetta kemur fram í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar fyrir árin 2020-2024.
Í fjármálaáætluninni nefnir hún að ýmsir óvissuþættir steðji að hagkerfinu eftir um þriðjungsaukningu landsframleiðslu á síðustu níu árum. Hins vegar sé staða ríkissjóðs sterk, þar sem hann hafi verið rekinn með afgangi undanfarin ár, en gert er ráð fyrir áframhaldandi afgangi af rekstrinum á árunum 2020-2024 sem nemi um 0,8 til 1 prósenti af landsframleiðslu á hverju ári.
Myndarleg aukning
Samhliða spáðri kólnun í efnahagslífinu gerir ríkisstjórnin ráð fyrir „myndarlegri aukningu“ í fjárfestingum hins opinbera, bæði í innviðum félagslega stuðningskerfis samfélagsins og í efnislegum innviðum. Þar beri helst að nefna átak í uppbyggingu samgöngumannvirkja, en fyrirhuguð raunútgjöld til samgönguframkvæmda á næstu tveimur árum yrðu þau hæstu í tuttugu ár. Til viðbótar við samgöngumál mætti einnig búast við sókn í nýsköpunar-og þróunarverkefnum, en framlög til þess málaflokks mun hækka um ríflega fjórðung frá fyrri áætlun. Heildstæð nýsköpunarstefna verði svo tilkynnt seinna í ár.
Ríkisstjórnin bendir á að þrátt fyrir að útlit sé fyrir lítinn hagvöxt í ár geti hann tekið við sér á næsta ári. Einnig er ítrekað áætluninni að aðgerðir síðustu ára geri það að verkum að hagkerfið sé mun betur í stakk búið en áður til að bregðast við verri horfum. Skuldir ríkissjóðs vegna endurfjármögnunar fjármálakerfisins hafi verið greiddar af fullu og aðrar skuldir vegna hallareksturs undanfarinna ára hafi verið lækkaðar mikið.
Aukinn stuðningur fyrir lágtekjufólk og fyrstu kaupendur
Samkvæmt áætluninni stefnir ríkissjóður einnig á að gerðar verði kostnaðarsamar ráðstafanir til að stuðla að því að samkomulag náist um kjarasamninga á vinnumarkaði.
Þar beri helst að nefna aukinn stuðning við byggingu húsnæðis fyrir lágtekjufólk og við fyrstu kaupendur á húsnæðismarkaði í ljósi þess að húsnæðis- og leiguverð hefur lækkað talsvert umfram laun síðastliðin ár.
Einnig bendir ríkisstjórnin á breytingar á vaxtabótakerfinu og aukið öryggi á leigumarkaði með uppbyggingu almennra íbúða. Í fjármálaáætluninni er bent á að markmið stjórnvalda sé að húsnæðiskostnaður leigjenda almennra íbúða fari að jafnaði ekki umfram fjórðung tekna að teknu tilliti til húsnæðisbóta. Ríkisstjórnin bendir svo á að lífskjarabætur felist í fyrirhuguðum hækkunum fæðingarorlofsgreiðslna á kjörtímabilinu, en Ásmundur Einar Daðason félagsmálaráðherra stefnir að því að lengja fæðingarorlofið í 12 mánuði.