Viðræðum forsvarsmanna Icelandair og WOW air, um mögulega sameiningu eða kaup fyrrnefnda félagsins á því síðarnefnda, á grundvelli þess að um fyrirtæki á fallandi fæti sé að ræða, er lokið.
Forsvarsmenn félaganna funda nú með stjórnvöld, samkvæmt heimildum Kjarnans, þar sem farið er yfir niðurstöðuna í viðræðunum og næstu skref.
Tilkynningar er að vænta síðar í dag, um niðurstöðuna.
Eins og greint hefur verið frá, þá er staða WOW air fallvölt og hefur verið mánuðum saman. Viðræður félagsins, sem Skúli Mogensen á og stýrir, við bandaríska félagið Indigo Partners skiluðu ekki árangri. Í framhaldinu var tilkynnt - með tilkynningu Icelandair til kauphallar - um að WOW air og Icelandair myndu ræða saman um mögulega sameiningu eða kaup Icelandair á WOW air.
Stjórnvöld sendu einnig frá sér tilkynningu, þar sem Icelandair sagði að viðræðurnar færu fram í samráði við stjórnvöld.
Mikið er í húfi fyrir íslenskan efnahag, enda hefur WOW air verið í lykilhlutverki við uppgang í ferðaþjónustu á undanförnum árum.
Úlfar Steindórsson, formaður stjórnar Icelandair, varðist frétta af viðræðunum þegar Kjarninn náði af honum tali, en staðfesti að nú ættu sér stað viðræður við stjórnvöld.
Icelandair hefur gengið í gegnum erfiðan rekstrartíma að undanförnu, en félagið tapaði 6,8 millj-örðum króna á síðasta ársfjórðungi ársins 2018. Nýlega fékk félagið 80 milljónir Bandaríkjadala að láni, um 10 milljarða króna, til að endurfjármagna skuldir og styrkja rekstrargrunn félagsins.
Þá hafa vandamál Boeing - vegna banns við notkun á 737 Max 8 vélum félagsins - sett strik í reikninginn, en félagið þurfti að taka þrjár vélar úr notkun vegna þessa.
Eigið fé félagsins var hins vegar um 55 milljarðar króna, í lok árs í fyrra.