Fjárfestingarsjóður í stýringu hjá Macquarie Infrastructure and Real Assets (MIRA) hefur undirritað kaupsamning á 53,9 prósent hlut Magma Energy Sweden í íslenska orkufyrirtækinu HS Orku á 304,8 milljónir dala, eða um 37 milljarða króna.
MIRA er stærsta eignastýringafyrirtæki í heimi á sviði innviðafjárfestinga. HS Orka er þriðja stærsta orkufyrirtæki landsins á eftir Landsvirkjun og Orkuveitu Reykjavíkur. Fyrirtækið á tvö orkuver, annað í Svartsengi og hitt á Reykjanesi, og framleiðir alls um sex prósent af allri orku á Íslandi.
Magma Energy Sweden var í eigu kanadíska fyrirtækisins Innergex Renewable Energy. Það keypti Alterra Power, áður stærsta eiganda HS Orku, í febrúar í fyrra. Magma Energy Sweden, sem heldur á meirihlutanum í HS Orku var því dótturfélag Innergex.
Aðrir eigendur HS Orku eru meðal annars íslenskir lífeyrissjóðir í gegnum félagið Jarðvarma slhf. og fjárfestingasjóðinn Örk, sem er í eigu svissnesks félags. Samanlagður eignarhluti þeirra er 46,1 prósent.
Á 30 prósent hlut í Bláa lóninu
HS Orka er eina íslenska orkufyrirtækið sem er í eigu einkaaðila. HS Orka á og rekur orkuver í Svartsengi og á Reykjanesi auk þess sem virkjanakostir sem fyrirtækið á eru í nýtingarflokki rammaáætlunar.
HS Orka skilaði 4,6 milljarða króna hagnaði árið 2017 og eignir félagsins voru metnar á um 48,4 milljarða króna. Á meðal þeirra eigna er 30 prósent hlutur í Bláa lóninu sem metinn var á 2,7 milljarð króna í síðasta birta ársreikningi HS Orku. Á árinu 2017 bárust nokkur tilboð í þann hlut sem voru yfir ellefu milljörðum króna. Alterra vildi taka þeim tilboðum en Jarðvarmi hafnaði því og forsvarsmaður fyrirtækisins sagði að tilboðin endurspegluðu ekki verðmæti Bláa Lónsins. Heildarvirði Bláa lónsins samkvæmt tilboðunum sem fyrir lágu var 37 milljarðar króna.
Umdeild kaup á sínum tíma
Alterra, sem þá hét Magma Energy, keypti sig inn í HS Orku árið 2009. Viðskiptin voru mjög umdeild og þáverandi stjórnvöldum hugnaðist þau ekki. Þrátt fyrir ítrekaðar inngripstilraunir hélt Magma/Alterra áfram að eignast hluti í HS Orku og átti vorið 2011 nánast allt hlutaféð í fyrirtækinu.
Jarðvarmi keypti svo hlut í HS Orku í maí 2011 og nýtti kauprétt á viðbótarhlut ári síðar. Samanlagt á það félag núna 33,4 prósent hlut. Síðsumars keypti svo fjárfestingarsjóðurinn Örk 12,7 prósent hlut, en Alterra, og síðar Innergex, áttu rest þangað til í dag. Innlendir aðilar munu því eiga 46,1 prósent hlut í HS Orku á móti MIRA, sem mun eiga 53,9 prósent.