Skúli Mogensen, stofnandi og forstjóri WOW air, hefur misst félagið til kröfuhafa, en þetta varð ljóst eftir að heimild skuldabréfaeigenda til að taka félagið virkjaðist, þegar félagið gat ekki greitt um 150 milljónir króna í vexti af skuldabréfaflokknum.
Frá þessu greindi mbl.is í dag, en skuldabréfaflokkurinn var upp á 50 milljónir evra, um 6,8 milljarða króna, en skuldabréfaútboðið fór fram í haust.
Við þessa ákvörðun skuldabréfaeigenda missir eignarhaldsfélagið Títan Fjárfestingafélag ehf. sem að fullu leyti er í eigu Skúla Mogensen, yfirráð yfir félaginu, en að því er fram kemur í umfjöllun mbl.is þá verður hann áfram hluthafi í félaginu, þar sem hann keypti um 11 prósent af skuldabréfaflokknum sjálfur.
Nú er unnið að því að ná samkomulagi við aðra kröfuhafa, eins og flugvélaleigufélög, en umfram allt er verið að reyna að vinna eins hratt og kostur er, að því að fá meira fjármagn inn í félagið, enda er það á ystu nöf og bráðvantar peninga til að geta haldið áfram rekstri og staðið við skuldbindingar, þar á meðal launaútkeyrslu fyrir næstu mánaðarmót.
Meðal þeirra sem horft er til þess að fá aftur að borðinu, er bandaríska félagið Indigo Partners, þar sem hinn 81 árs gamli Bill Franke er aðaleigandi og stjórnandi, samkvæmt heimildum Kjarnans.
Ekki er langt síðan tilkynnt var um viðræðuslit milli WOW air og Indigo Partners.
Liv Bergþórsdóttir, fyrrverandi forstjóri Nova, er stjórnarformaður félagsins, en aðrir í stjórn eru Helga Hlín Hákonardóttir lögmaður og Davíð Másson.