Magnús M. Norðdahl, lögfræðingur Alþýðusambands Íslands var þann 18. mars síðastliðinn kjörinn í stjórn Alþjóðavinnumálastofnunarinnar, ILO, fyrstur Íslendinga. Í tilkynningu frá ASÍ segir að Magnús hafi verið tilnefndur af norræna verkalýðssambandinu, NFS, studdur af alþjóðasambandi verkafólks, ITUC og einróma kjörinn af fulltrúum alþjóðlegrar verkalýðshreyfingar til þessa embættis.
Magnús aðalfulltrúi í Félagafrelsisnefndinni
Magnús hefur verið fulltrúi íslenskrar verkalýðshreyfingar á þingum ILO síðastliðinn 20 ár og tekið þátt í fjölmörgum samninganefndum á vettvangi stofnunarinnar. Hann leiddi meðal annars slíka nefnd fyrir hönd verkafólks á árinu 2016. Magnús hefur einnig setið í ýmsum nefndum, stjórnum og samráðshópum hér á landi. Hann var meðal annars formaður framkvæmdastjórnar Alþýðuflokksins 1996 til 2000. Hann var einnig varamaður í bæjarstjórn Kópavogs og formaður barnaverndarnefndar Kópavogs. Hann var jafnframt varaþingmaður Samfylkingarinnar árið 2012.
Alþjóðavinnumálastofnunin var stofnuð 1919 á grundvelli Versalasamninganna og varð við stofnun Sameinuðu þjóðanna fyrsta sérstaka stofnun þeirra. Ísland hefur átt aðild að Alþjóðavinnumálastofnuninni síðan 19. október 1945. Stofnunin er að jöfnu stjórnað af ríkisstjórnunum og aðilum vinnumarkaðarins. Hlutverk ILO er annars vegar setning alþjóðalaga á sviði vinnuréttar og félagsmála og eftirlit með framkvæmd þeirra laga. Hins vegar snýr hlutverk þess að aðstoð við aðildarríki stofnunarinnar við framkvæmd þessara laga.
Umfangsmikið eftirlitskerfi er rekið af stofnuninni og Félagafrelsisnefndin,Committee on Freedom of Associaton - CFA, starfar til þess að taka við og úrskurða kærur um brot gegn alþjóðlega viðurkenndu og vernduðu félagafrelsi og kjarasamningsrétti. Stjórn ILO kaus Magnús einróma þann 25. mars sem aðalfulltrúa í þá nefnd en Ísland hefur aldrei áður átt fulltrúa í henni.