Skipasmíðastöðin Crist S.A. í Póllandi sem smíðar nýjan Herjólf hefur skyndilega á lokametrum verksins krafist viðbótargreiðslu sem nemur nærri þriðjungi af heildarverði skipsins. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Vegagerðinni sem send var til fjölmiðla í dag.
Vegagerðin hefur hafnað þessari kröfu og bíða nú eftir viðbrögðum frá skipasmíðastöðinni. Samkvæmt Vegagerðinni er engin stoð í samningi aðila fyrir þessari kröfu skipasmíðastöðvarinnar.
Upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar segir í samtali við Kjarnann að þau séu nú í þreifingum við skipasmíðastöðina til þess að gera betur grein fyrir þeirra afstöðu. Hann segist reikna með að áfram verði unnið að samningum milli Vegagerðarinnar og skipasmíðastöðvarinnar.
Miklar tafir á verkinu
Samningur aðila kvað á um smíðaverð upp á 26.250.000 evrur. Síðan hefur verið samið um fjölda aukaverka, þar á meðal fulla rafvæðingu Herjólfs, alls upp á 3.492.257 evrur. Í tilkynningunni frá Vegagerðinni kemur fram að skriflegir samningar séu til um öll þessi aukaverk.
Tafir hafa orðið miklar þrátt fyrir að í samningum um aukaverk hafi verið samið um lengdan verktíma. Tafabætur nema núna ríflega einni og hálfri milljón evra, samkvæmt útreikningum Vegagerðarinnar.
Samningsupphæðin ásamt samningum um aukaverk, ef horft er framhjá tafabótum, gera lokaverð upp á rétt ríflega 29,7 milljónir evra eða um 4 milljarða króna á genginu í dag.
Krafan um viðbótargreiðslu ríflega 1,2 milljarðar króna
Skipasmíðastöðin gerir nú hins vegar kröfu upp á heildarverð sem nemur 38.430.000 evrum eða ríflega 5,2 milljörðum króna. Krafan um viðbótargreiðslu, sem ekki hefur verið nefnd fyrr en nú, hljóðar upp á um 8,9 milljónir evra eða ríflega 1,2 milljarða króna á gengi dagsins.
Upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar segir í samtali við Kjarnann að það hafi komið mikið á óvart að á lokastigum væri gerð þessi krafa um upphæð sem nemur um þriðjungi heildarverðsins. Í tilkynningunni kemur fram að þetta hafi sérstaklega komið á óvart þar sem smíðasamningurinn sé alveg skýr í þessum efnum og á fundum með skipasmíðastöðinni hafi þetta aldrei verið nefnt.
Skipasmíðastöðin ber fyrir sig að hönnun skipsins hafi breyst sem feli í sér aukinn kostnað. Í tilkynningu Vegagerðarinnar kemur fram að líkt og venjan sé þegar samið er við skipasmíðastöð um smíði skips sem hefur verið forhannað þá hafi Crist S.A. tekið yfir fulla og ótakmarkaða ábyrgð á hönnun skipsins þegar samið var um smíðina.
Skipið lengt
Skipið var lengt um 1,8 metra eftir að skipasmíðastöðin komst að því að skipið myndi verða þyngra en þeir höfðu áætlað og þeir gætu ekki staðið við ákvæði samningsins varðandi djúpristu og burðargetu. Crist S.A. gerði tillögu að lengingu skipsins til þess að geta staðið við samninginn og var fallist á það.
Samtímis var í samráði við Vegagerðina ákveðið að breyta stefni skipsins til að minnka mótstöðuna til að vega upp á móti aukinni mótstöðu við lenginguna og aukna djúpristu.
Viðaukasamningur var gerður um lenginguna þann 7. september árið 2017. Þá var ákvæðum samningsins sem lúta að stærð og djúpristu breytt og jafnframt var afhendingartími skipsins lengdur frá 20. júní 2018 til 1. ágúst sama ár. Öll önnur ákvæði samningsins voru óbreytt þar á meðal verð en farið var eftir ákvæðum samningsins um ábyrgð Crist S.A. á hönnun skipsins, segir í tilkynnningu Vegagerðarinnar.
Crist S.A. gerði hvergi í viðræðum kröfu um aukaverð
Samkvæmt Vegagerðinni gerði Crist S.A. hvergi í viðræðum við stöðina, fundargerðum, bréfum eða öðrum gögnum kröfu um aukaverð vegna þessara breytinga eða annarra fyrr en með bréfi þann 25. febrúar á þessu ári.
„Það er því á engan hátt mögulegt fyrir Vegagerðina að ganga að kröfu skipasmíðastöðvarinnar um viðbótargreiðslu sem nemur stórum hluta af heildarverðinu, sem stenst á engan hátt samninga aðila um smíði ferjunnar og sem hefur ekki verið nefnt fyrr en fyrir um mánuði síðan,“ segir í tilkynningunni.