Hjálmar Jónsson, formaður Blaðamannafélags Íslands, segir að ekki þurfi annað en horfa til umfjöllunar blaðamanna um Icelandair og erfiðleika þess félags, samkeppnisaðila WOW, til að sjá hversu fjarstæðukenndir órar séu á ferðinni í stjórn Íslenska flugmannafélagsins. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá formanninum sem birt er á vef BÍ.
Stéttarfélag flugmanna WOW air, ÍFF, hefur óskað eftir rannsókn á „hlunnindum og sporslum“ til blaðamanna, svo sem fríðmiðahlunnindum frá helsta samkeppnisaðila WOW air. Stéttarfélagið óskar eftir þessari rannsókn í ljósi „óvæginnar“ umfjöllunar íslenskra fréttamiðla um WOW air að undanförnu.
„Það er ábyrgð blaðamanna að fjalla á gagnrýnin hátt um mikilvæg fyrirtæki í íslensku efnahagslífi, að ekki sé talað um flugfélög sem starfa á viðkvæmum neytendamarkaði. Það er skuldbinding blaðamanna gagnvart íslenskum almenningi. Ég hef skilning á því að starfsmenn WOW air hafi áhyggjur af störfum sínum, en að rekja einhvern hluta af rekstrarvanda fyrirtækisins til umfjöllunar blaðamanna er að fara í geitarhús að leita ullar,“ segir Hjálmar í yfirlýsingunni.