Íslenska hugbúnaðarfyrirtækið GRID hefur tryggt sér 3,5 miljóna dala, um 425 milljón króna, fjármögnun. Þetta er í annað sinn frá því að GRID, sem var stofnað í fyrrahaust, lýkur fjármögnunarlotu en í október tryggði fyrirtækið sér eina milljón dali, um 122 milljónir króna, fjármögnun.
Samanlagt nemur því fjárfestingin í GRID, sem er rétt hálfs árs gamalt, vel yfir hálfum milljarði króna.
Stofnandi og framkvæmdastjóri GRID er Hjálmar Gíslason, sem stofnaði áður, og seldi síðar, Datamarket sem síðar rann inn í Qlik. Hjálmar er einnig hluthafi í Kjarnanum og stjórnarformaður rekstrarfélags miðilsins.
Hugmyndin að GRID snýst um söfnun og framsetningu gagna í gegnum tól sem legst ofan á töflureikni (e. spreadsheet) sem býr til viðmót sem notendur geta fyllt út. Allar upplýsingar sem notendur fylla inn í viðmótið flæða síðan áfram í Excel-skjal viðkomandi.
Fjárfestingin nú er leidd af BlueYard Capital fjárfestingasjóðnum með þátttöku aðila á borð við Slack Fund, Acequia Capital og englafjárfestinum Charlie Songhurst.
Í frétt á heimasíðu GRID kemur fram að þær tvær fjármögnunarlotur sem fyrirtækið hefur þegar gengið í gegnum tryggi rekstur þess miðað við fyrirliggjandi áætlanir fram eftir árinu 2021. Fjármögnunin nú gefi GRID rými til að einbeita sér að því að byggja upp fyrstu vöruna sína, koma henni á markað og vaxa þaðan.
Á næstu misserum mun GRID ráða fleira fólk til starfa til að sinna þeim vexti.