Stéttarfélag flugmanna WOW air, ÍFF, óskar eftir rannsókn á „hlunnindum og sporslum“ til blaðamanna, svo sem fríðmiðahlunnindum frá helsta samkeppnisaðila WOW air. Stéttarfélagið óskar eftir þessari rannsókn í ljósi „óvæginnar“ umfjöllunar íslenskra fréttamiðla um WOW air að undanförnu. Þetta kemur fram í bréfi frá stéttarfélaginu sem stílað er á Hjálmar Jónsson, formann Blaðamannafélags Íslands.
Vilja einnig láta kanna heimildaöflun íslenskra blaðamanna
Í bréfinu segir að stéttarfélagið óski eftir þessari rannsókn með tilliti til gagnsæis blaðamanna gagnvart lesendum sínum. Í bréfinu segist stéttarfélagið ennfremur vilja láta kanna heimildaöflun íslenskra blaðamanna um málefni WOW air hverju sinni. Það sé vegna þess að margir þeirra reiða sig meðal annars á upplýsingar frá bloggara, búsettum í Svíþjóð, sem sé „sjálfskipaður helsti sérfræðingur Íslands í flugmálum og oftar en ekki sé vitnað í „órökstuddar hugleiðingar hans.“
Þar er líkast til átt við vefinn Túristi.is sem haldið er úti af Kristjáni Sigurjónssyni, Íslendingi sem býr í Svíþjóð, og hefur um margra ára skeið sérhæft sig í umfjöllun um ferðaþjónustu á Íslandi.