Seðlabanki Íslands mun svara Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra í næstu viku og greina henni frá því hversu langt rannsókn á leka úr Seðlabankanum vegna húsleitar hjá Samherja fyrir sjö árum er komin.
Þetta kom fram í máli Más Guðmundssonar seðlabankastjóra á opnum fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar í dag.
Hann segir að málið sé í skoðun, þ.e. hvort og hvaða samskipti hafi átt sér stað milli starfsmanna Seðlabankans og fjölmiðla.
Umboðsmaður Alþingis sendi forsætisráðherra bréf þann 4. mars síðastliðinn en þar beindi hann sjónum sínum að bréfi Más Guðmundssonar seðlabankastjóra til Katrínar sem hann sendi þann 29. janúar síðastliðinn.
Umboðsmaður sagðist hafa fengið nánari upplýsingar um samskipti starfsmanna Seðlabanka Íslands og Ríkisútvarpsins í aðdraganda húsleitarinnar eftir að greint hafi verið frá bréfi seðlabankastjóra á vef bankans. „Þessar upplýsingar gefa að mínu áliti tilefni til að kallað verði eftir hver var í raun hlutur starfsmanna gjaldeyriseftirlits Seðlabankans í að upplýsa starfsmann Ríkisútvarpsins um hina fyrirhuguðu húsleit. Þá tel ég þörf á að ganga eftir því við Seðlabanka Íslands hver hafi tekið ákvörðun um að veita upplýsingar og hver hafi verið aðkoma og vitneskja yfirstjórnar bankans um þessi samskipti við Ríkisútvarpið,“ sagði hann í bréfinu til Katrínar.
Óskaði umboðsmaður eftir svari frá forsætisráðherra fyrir 20. mars.