Allt flug hjá WOW air hefur verið stöðvað. Í tilkynningu frá WOW air segir að félagið sé á „lokametrunum“ með að klára fjárfestingu og fá nýjan eigendahóp að félaginu.
„WOW air er á lokametrunum að klára hlutafjáraukningu við nýjan eigendahóp á félaginu. Allt flug hefur verið stöðvað þangað til þeir samningar verða kláraðir. Nánari upplýsingar verða gefnar kl. 9. Félagið þakkar farþegum fyrir stuðninginn og biðst velvirðingar á þeim óþægindum sem þetta veldur.“
Undanfarnar vikur hafa forsvarsmenn WOW air reynt að bjarga félaginu frá gjaldþroti, en kröfuhafar tóku það yfir á mánudag, að mestu leyti, en síðan þá hefur verið unnið að því með ráðgjöfum að fá nýja eigendur að félaginu.
Fjárhagsstaða WOW air er í molum, eins og fram hefur komið, og þarf félagið á milljarða fjárinnspýtingu að halda til að geta orðið starfhæft til framtíðar. Rætt hefur verið um 40 milljónir Bandaríkjadala, eða um 5 milljarða króna, í þeim efnum, en ekki er útilokað að það þurfi hærri fjárhæðir til þess að tryggja rekstur félagsins.