Í dag hefur mikið verið fjallað um fall WOW air í erlendum fjölmiðlum, og hefur umfjöllunin ekki síst verið mikið í Bandaríkjunum, sem var lykilmarkaðssvæði hjá félaginu á vaxtartíma þess. Fyrsta flugið var 31. maí 2012 og því var það með flugvélar í flugi í tæplega sjö ár.
Fjallað var um fall félagsins í New York Times, Bloomberg og öðrum helstu miðlum Bandaríkjanna, auk þess sem töluvert var fjallað um tíðindin í sjónvarpsfréttum. Um þrjátíu prósent erlendra ferðamanna á Íslandi, hafa komið frá Bandaríkjunum, undanfarin misseri og hefur hlutur ferðamanna þaðan vaxið jafnt og þétt undanfarin ár, samhliða fjölgun áfangastaða þar.
Skiptastjórar í bú WOW air eru Sveinn Andri Sveinsson hrl. og hrl. og segir Sveinn Andri í viðtali við mbl.is í dag, að nú taki við vinna við að greina stöðu mála, áður en innköllun krafn í búið hefst.
Í viðtali við mbl.is segir Sveinn Andri að það hafi verið sérstök tilfinning að koma á vinnustaðinn, þar sem starfsfólk hefði unnið sólarhringum saman við að reyna að bjarga félaginu.
Viðskiptablaðið greindi frá því hvernig skuldastaða félagsins hefði verið við síðustu mánaðarmót, og birti meðal annars sundurliðun á langtímaskuldum félagsins, en samkvæmt því yfirliti voru skuldir 15,7 milljarðar króna.
Þar á meðal voru skráð skuldabréf, vegna útgáfu félagsins síðastliðið haust, um 6,9 milljarðar króna. Til stóð að breyta þeim skuldum í hlutafé, en það var háð því skilyrði að það tækist að endurskipuleggja reksturinn og fá inn meira fjármagn, sem síðan gekk ekki eftir.
Sundurliðun skuldanna, eins og hún birtist á vef Viðskiptablaðsins, var eftirfarandi.
Skráð skuldabréf: 6,9 milljarðar króna
Lán frá Arion banka (þrjú aðskilin lán): 1,6 milljarðar króna
IBM Financing: 14,5 milljónir króna
Dell Financing: 4,6 milljónir króna
Isavia: 1,8 milljarðar króna
Avalon: 1,9 milljarðar
ALC: 1,7 milljarðar króna
ICBC: 400 milljónir króna
Goshawk: 250 milljónir króna
Rolls Royce: 446 milljónir króna
Títan Fjárfestingafélag: 769 milljónir króna