Fall WOW air hafði mikil áhrif á markaði í dag og beitti Seðlabanki Íslands inngripum á gjaldeyrismarkaði til að koma í veg fyrir að gengi krónunnar félli meira gagnvart helstu viðskiptamyntum. Krónan veiktist um 0,73 prósent gagnvart evru, þrátt fyrir inngrip, og 0,91 prósent gagnvart Bandaríkjadal. Evran kostar nú tæplega 138 krónur og Bandaríkjadalur tæplega 123 krónur.
Uppsagnarhrina hefur farið í gang í ferðaþjónustunni. Kynnisferðir hafa sagt upp 59 starfsmönnum, svo dæmi sé tekið, og segir framkvæmdastjórinn að fall WOW air sé vegamikill þáttur í þeirri ákvörðun.
Hlutabréfavísitalan lækkaði um 1,27 prósent, en bréf Kviku banka voru tekin ný til viðskipta að aðalmarkaði í dag, og hækkaði gengi bréfa bankans um 0,6 prósent.
Fyrir utan þá þúsund starfsmenn sem missa vinnuna hjá WOW air - og fyrirsjáanlega nokkur hundruð til viðbótar sem hafa verið að þjónusta fyrirtækið og farþega þess - þá er líklegt að áhrifin á ferðaþjónustuna verði umtalsverð, á næstu misserum.
Erfitt er að segja til, en vonir standa til þess að höggið verði ekki of þungt - það er að það bitni ekki of mikið á hagvexti í landinu, þó viðbúið sé að það verði raunin.
Sviðsmyndir sem unnar voru fyrir stjórnvöld í fyrra gerðu ráð fyrir að fall WOW air, miðað við stöðuna eins og hún var síðsumars, hefði getað valdið því að landsframleiðsla myndi falla nokkuð, um allt að 3 prósent. En frá þeim tíma hefur mikið vatn runnið til sjávar og umfang reksturs WOW air hefur skroppið verulega saman, um meira en helming, nú þegar kom að endastöð.
Því má segja að höggið hafi linast og það sé búið að koma fram ákveðin kólnun í hagkerfinu. Minni eftirspurn og meiri hægagangur í nýráðningum hafa verið leiðarstefið í hagspám fyrir þetta ár og næsta, en þó er gert ráð fyrir að hagvöxtur verði áfram á bilinu 1,5 til 3 prósent á þessu ári og til framtíðar.
Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, gerði stöðu hagkerfisins að umtalsefni í ræðu á aðalfundi Seðlabanka Íslands í dag. „Hér er um að ræða getu þjóðarbúsins og fjármálakerfisins til að takast á við áföll vegna ágætrar ytri stöðu, stórs gjaldeyrisforða og tiltölulega góðrar eiginfjárstöðu heimila og fyrirtækja. Staða bankanna er einnig sterk eins og ég hef nú farið yfir. Þá er svigrúm hagstjórnar til að bregðast við töluvert og mun meira en víða um heim. Það er afgangur á ríkissjóði og skuldir hins opinbera eru litlar í sögulegu samhengi. Svigrúm til lækkunar vaxta er hér mikið ef aðstæður kalla á, ólíkt mörgum viðskiptalöndum, þar sem þeir eru töluvert fyrir ofan núll hér á landi," sagði Már.