„Niðurstaðan lá alltaf fyrir. Ég held að ég hafi aldrei verið á mínum ferli verið jafn viss um niðurstöðu og þessa.“
Þetta segir Sigríður Rut Júlíusdóttir, lögmaður á Rétti, um dóm Hæstaréttar Íslands í hinu fræga lögbannsmáli sem Glitnir HoldCo höfðaði á hendur Stundinni og Reykjavik Media vegna umfjöllunar um fjármál Bjarna Benediktssonar, þáverandi forsætisráðherra, skömmu fyrir kosningar 2017.
Í dómnum, sem féll 22. mars síðastliðinn, var öllum kröfum GlitnisHoldCo í málinu hafnað. Sigríður Rut ræddi dóminn og áhrif hans við Þórð Snæ Júlíusson, ritstjóra Kjarnans, í sjónvarpsþættinum 21 á Hringbraut í vikunni.
Hægt er að sjá stiklu úr þættinum hér að neðan.
Dómurinn snerist ekki um gildi lögbannsins sem sett var á umfjöllun miðlanna tveggja um fjármál Bjarna og fjölskyldu hans sem unnin var upp úr gögnum frá Glitni, enda hafði lögbannið ekki verið í gildi síðan að Landsréttur hafnaði því að staðfesta það í október í fyrra, tæpu ári eftir að sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu setti lögbannið á. Það hélt þó gildi sínu allan þann tíma og Stundin gat ekki haldið áfram umfjöllun sinni uppúr gögnunum fyrr en að dómur Landsréttar lá fyrir.
Sigríður Rut sagði málið í Hæstarétti ekki hafa bara verið tjáningarfrelsismál heldur hafi verið reynt að banna fyrir fram ákveðna tjáningu. Það sé alvarlegasta tegund slíkra brota. „Þarna er verið að banna þér að segja fréttir í þessu tilviki áður en þú segir þær.“
Ritskoðun sé bönnuð samkvæmt stjórnarskránni. Lögbann sé fyrir fram takmörkun á tjáningu en telst ekki ritskoðun vegna þess að það byggir á lagaákvæði, stefnir að lögmæti markmiði og telst nauðsyn í lýðræðisríki.
„Það er ofboðslega erfitt að segja þegar þú ert búinn að missa lögbannsafsökunina, þú ert ekki lengur með lögbannsákvæðið til að styðjast við, þá er rosalega erfitt að halda því fram á sannfærandi máta að þar með sért þú ekki að krefjast ritskoðunar. Þú ert búinn að missa lagaákvæðið sem afsakaði þig áður.“
Það sem henni finnst vera gott við dóminn er umfjöllun Hæstaréttar um heimildarvernd. „Þar er skorið úr um það, að blaðamenn hafa, ef það er einhver vafi, ef það er verið að spyrja um gögn, ef það er verið að spyrja um upplýsingar um gögn, ef það er einhver vafi þá hefur blaðamaðurinn heimild til að segja: „Ég ætla ekki að svara neinu um þessi gögn“.“